þriðjudagur, 29. maí 2007

De er røde de er hvide

Búin að sækja um og búin að fá óskiljanlegt svar

þá er bara að byrja að æfa sig að snakka dönsku

sunnudagur, 27. maí 2007

föstudagur, 25. maí 2007

Yo

Ný síða...eina ferðina enn.
Það er þó góð og gild ástæða fyrir því, fartölvan mín, sem ég kýs að kalla Bobby, neitar að opna bloggar.is og því reynist mér ansi erfitt að blogga á bloggar.is. Hef ekki tjáð mig við alheiminn síðan ég veit ekki hvenær (einmitt vegna þess að ég get ekki opnað gömlu síðuna mína og séð það) og tími til kominn að segja eitthvað.

Ég er alveg ótrúlega löt. Búin að vera í fríi síðan á miðvikudag í síðustu viku og lítið annað búin að gera en að sofa, éta og eyða peningum sem fara brátt að klárast. Reyndar fór ég í frábæra útilegu og spilaði á tvennum tónleikum en ég var afskaplega þreytt allan tímann.
Hef ekkert unnið í mánuðinum sem þýðir 0 kr í útborgun og 0 kr til að eyða út júnímánuð. Flott. Ástandið er orðið svo slæmt að ég fer að sofa fyrir miðnætti, vakna klukkan tvö eftir hádegi, legg mig fyrir kvöldmat og fer aftur að sofa fyrir miðnætti. Þetta mynstur breyttist þó eilítið í morgun þegar ég vaknaði upp við hávært sms-píphljóðið á náttborðinu mínu (sem er þó ekki náttborð heldur diskóborð frá áttunda áratugnum sem faðir minn smíðaði) rétt fyrir hálf ellefu. 'Það er mynd af þér í mogganum, farðu á fætur' var innihald skeytisins. Harðlindið og gríðarleg ógnun við svefnvenjur mínar varð að engu þegar ég las og það eina sem komst að í huga mínu var: Vááá...gegt. Þaut upp og leitaði að mogganum. Týndur. Opnaði bréfalúguna og hann hrundi út. Hmm...engin mynd af mér á forsíðunni, slæmt....engin mynd af mér á baksíðunni, slæmt...heyy...mynd af mér hjá bíóauglýsingunum. Ég velti því fyrir mér hvort ég eigi að fara að æfa mig að skrifa eiginhandaráritanir eða láta sem ég heyri ekki í krakkaskaranum, nei afsakið..ég meina hafinu af karlmönnum, sem bíða mín fyrir utan gluggann. Ég gæti líka þróað einhverja alveg nýja aðferð...en þá þarf ég að vísu að hugsa, sem ég á ansi bágt með að nenna.

Mig dreymdi draum í nótt. Mig dreymir alltaf drauma á næturnar og ég man þá alltaf. Núna dreymdi mig að ég væri drukkin á hjóli. Í draumunum mínum er ég alltaf annað hvort drukkin, ólétt, týnd eða allt þetta í bland. Í þessum draumi var ég var að hjóla á eftir bíl sem á stóð Jón son og það var eitthvað rosalegt mál með þetta son sem ég skildi ekki alveg. Ég var á leiðinni á Kaffibarinn á hjólinu mínu með vinkonu mína aftan á. Hjólaði á staur og braut hjólið. Fórum inn og spjölluðum við mannskapinn sem tók okkur fagnandi með þeim fréttum að ég væri ekki í buxum. Jább, ég var buxnalaus og berrössuð með kúlu á hausnum og í vafasömu ástandi, með ónýtt hjól fyrir utan. Það lagaðist samt ekkert. Þegar ég leit niður, sem ég auðvitað gerði þegar mér var tilkynnt að ég væri ekki í buxum, þá tók ég eftir glampandi óléttubumbunni minni sem teygði sig út í sígarettureykinn. Þá vaknaði ég. Vaknaði við sms-píphljóðið.

Hugsiði ykkur, ef það hefði ekki verið mynd af mér í mogganum þá hefði ég ekki fengið neitt sms, ef ég hefði ekki fengið neitt sms þá hefði ég ekki vaknað, ef ég hefði ekki vaknað þá væri ég sofandi núna, ef ég væri sofandi núna þá væri ég ekki að blogga heldur sofa, ef ég væri ekki að blogga heldur sofa þá væri ég trúlega enn stödd á Kaffibarnum að reyna að ráða fram úr buxnaleysinu, óléttunni, kúlunni á hausnum, ónýta hjólinu, son og ef til vill væri eitthvað stórkostlegt búið að bætast við...