fimmtudagur, 25. desember 2008

Fyrir Gumma

Hann heimtaði blogg svo hér kemur blogg. Ég lofa samt engu varðandi framtíðina...

Gleðileg jól allir. Einhver var búinn að koma þeirri hugsun fyrir hjá mér að kannski yrðu engin jól. Í mesta falli kreppujól sem einkenndust af vatnsdrykkju og fríkeypis skemmtun. En óóónei...ég hef aldrei fengið svona mikið af gjöfum og maturinn var dásamlegur. 

Klukkan fimm mínútur í sex í gærkvöldi fór allt í einu allt rafmagnið af húsinu mínu. Ég var stödd inni í eldhúsi en allir aðrir sestir við borðstofuborðið. Þá allt í einu kom svona vúúúúm hljóð og öll ljós dóu...eina ljósið í öllu húsinu voru litlir ljósgeislar af kertum sem stóðu á matarborðinu. Mér fannst þetta fallegt og skemmtilegt og stakk upp á því að svona myndum við eyða kvöldinu. Fjölskyldan mín tók ekki vel í það, skimaði út um glugga og gættir og komst þá að því að húsið okkar var það eina sem átti við þetta rafmagnsvandamál að stríða. Það tók tíu mínútur að finna út úr vandamálinu, sem var einhverskonar slípivél sem koxaði úti í bílskúr. Á meðan sátum við í örlítlum ljósgeisla frá kerti og borðuðum humar. Mmmm...og svo kom rafmagnið og allt varð venjulegt aftur.

Eftir að hafa sprengt mig út af góðum mat og opnað alla pakkana fór ég svo að spila. Spila spila spila...og núna er ég eirðarlaus, í nýjum klæðum frá toppi til táar að reyna að tengja nýjar græjur og lesa bók og borða nammi og köku og drekka kók og mála og setja á mig eitthvað krem...og samt svo óskaplega eirðarlaus. Er að spá í að fá mér labbitúr. Og leggja mig smá. Og borða meira. Mmm...hafið það gott um jólin.