Í tilefni þess að þeir örfáu sem lásu þetta eru búnir að gefast upp á skrifleysinu...
Tók upp á því í gær að mála bílinn minn. Gætti þess þó að mála aðeins hægri hliðina þar sem hún sést ekki þegar ég legg í stæðið fyrir utan húsið mitt...svona til að forðast óþarfa spurningar um hvað í ósköpunum hafi komið fyrir bílinn minn. Það tókst þó ekki alveg.
Vaknaði upp við það í morgun að móðir mín þrammar inn í herbergið mitt.
,,Guðrún Sóley! Hefurðu séð bílinn þinn!"
Þar sem ég var á bólakafi í enn einum óléttudraumnum muldraði ég eitthvað og tróð hausnum undir koddann. Hún gafst ekki upp heldur hrópaði enn hærra:
,,GUÐRÚN SÓLEY! Þvílíkar ástarjátningar á bílnum þínum...mig grunar að hann hafi komið í nótt...já...og litað allan bílinn þinn! Að hugsa sér...!"
Og þá datt ég inn í óléttudrauminn og svaf vært til hádegis. Þegar ég klöngrast upp stigann og inn í eldhús sitja þær mæðgur við eldhúsborðið með spekingslegan svip og stara á mig.
,,Hvað?" spyr ég og nudda stírurnar úr augunum
,,Hefurðu séð bílinn þinn?" segja þær í kór og glotta
,,Já...ég gerði þetta í gær"
,,Núnú...við höldum að það hafi einhver komið í nótt og skrifað ástarjátningar til þín á bílinn"
,,Ha? Hver ætti að gera það? Ég gerði þetta í gær á planinu hjá Kristínu..."
,,Núnú og þorðirðu að aka á bílnum svona heim? Ekki trúum við því..."
Og þannig hélt samtalið áfram...og áfram....og áfram...þar til ég gafst upp og fór að tannbursta mig. Þær hafa glott og spurt mig ,,lúmskra" spurninga í allan dag sem ég þykist ekki taka eftir. Rétt í þessu tók ég uppá því að þjóta út í bíl og ná í bláa litinn, afhenda þeim hann og sýna þeim litinn undir nöglunum á mér. Þá hlógu þær og spurðu af hverju ég væri að æsa mig svona yfir þessu
Úff...það er svo sannarlega erfitt að vera listamaður
mánudagur, 20. ágúst 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli