Vaknaði eldhress í bítið, grunlaus um hvað biði mín. Ískaldar stofuflísarnar tóku á móti mér og frystu á mér iljarnar. Tannkremið búið. Klósettpappírinn búinn. Öll fyrifram ákveðin plön um losun og hreinlæti duttu upp fyrir vegna þessa. Klæddi mig og hélt af stað út í óvissuna. Bíllinn minn var gaddfreðinn og það tók mig svona korter að brjóta mér leið inn í hann. Við tók rúðusköfun með flotta ÓB kubbnum mínum sem einhver var svo góður að gefa mér þar vegna rúðusköfuleysis míns. Hann virkar nákvæmlega ekki neitt, gæti eins skafið með rúgbrauði. Keyrði af stað og vonaðist til að öll börn og gamalmenni í hverfinu væru enn sofandi eða að minnsta kosti afskaplega langt frá götunum. Eftir nokkrar ómægad uppgötvanir um svakalega hálku og rennirí þá komst ég loks að tónlistarskólanum. Um leið og ég hafði drepið á bílnum hringdi síminn. Tilkynning um það að fleiri bílar væru gaddfreðnir og að æfingunni yrði frestað um hálftíma. Ég hélt fúl heim á leið. Þegar þangað var komið fékk ég annað símtal. Æfingin sem átti að vera núna eftir korter verður alls ekki. Jei.
Ég er sem sagt búin að vera vakandi síðan klukkan hálf níu til einskis. Að vísu hef ég afrekað alveg stórkostlega hluti í þessum grindargaddi úti við en sú tilhugsun kætir mig voðalega lítið núna.
Komst að því í gær þegar ég ætlaði að kaupa mér kók að ég á nákvæmlega 25 krónur. 25 krónur til að lifa af fram á hvað, miðvikudag? Og ekki má gleyma því að það er ekki til neitt kók, enginn klósettpappír, ekkert tannkrem og bensínið af afar skornum skammti.
Ég verð víst bara að flytja til fjalla og læra að lifa á fjallagrösum og stunda andlega íhugun til að koma í veg fyrir að ég tapi vitinu innan um kjánalegar kindur og kýr.
Í stað þess að væla í foreldrum mínum og vinum um lán á pening þar til um mánaðarmótin hef ég ákveð að gefa skít í þetta. Ég dey ekkert þó ég tannbursti mig heima hjá mömmu og pabba, geri þarfir mínar annars staðar en heima hjá mér og drekki frítt vatn í stað kóks í þrjá daga. Iss piss ég get það alveg.
Las þessa klausu einhversstaðar: Ef þú átt mat í ísskápnum, föt í skápunum, þak yfir höfuðið og stað til að sofa á - þá ert þú ríkari en 75% af heiminum.
Sko! Ég er rík! Að vísu á ég engan mat í ísskápnum fyrir utan ársgamlan smurost og loðinn appelsínudjús en það er allt í lagi. Ég ét þá bara það sem úti frýs- sko frostið er meira að segja jákvætt! Á að vísu engin föt í skápunum heldur- þau eru á víð og dreif um allt svefnherbergið. En þak hef ég og mátulega stórt rúm, föt á gólfunum og fullt af frosti til að borða. Namm namm namm hvernig ætli jólin verði?
sunnudagur, 28. október 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já kannast við þegar svona gerist rétt fyrir mánaðarmótin. Ég á samt alveg 1.762 kr enn ;).
En ef þú átt enn bensín þá geturu alltaf rennt til mín í Mosfellsbæinn og fengið kók og sótt þverflautuna.
Annars, myndasögur? Ég gef þér alltaf skáldsögur í jólagjöf og þú mér.. Ég að misskilja?
Annars 2, hva ertu flutt út?
Skrifa ummæli