fimmtudagur, 31. janúar 2008

Lífið er dásamlegt

...það er aðeins eitt sem veldur mér áhyggjum.

Ef við förum yfir listann minn yfir sjúklegar hræðslur við hluti þá tróna gullfiskar og byssur klárlega á toppnum, en eldfjöll og lofsteinar fyglja fast á hæla þeirra.

ooog...

Við erum að tala um það að á Mars er VIRKT eldfjall sem er jafn stórt og Ísland í þvermál!!! ÍSLAND!!! Og það er heví hátt, eitthvað í kringum 80 kílómetra!

Og eins og ég benti kennaranum svo réttilega á, þá gæti allt eins verið að það myndi gjósa brjálæðislega mikið, svo mikið að gosið myndi fara upp í loftið, smjúga í gegnum ofurþunnan lofthjúpinn og splundrast út í geim sem fullt af litlum lofsteinum. Og litlir loftsteinar smjúga einmitt mjög auðveldlega í gegnum lofthjúp jarðar og geta þannig...

tjah...

ÞURKKAÐ OKKUR ÚT!


ég óska eftir byrgi til leigu, samt ekki ef þú byrjar á G...

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Kreppa

í vorrar frúar hjarta
víst fær hún taugaáfall

knappur tími
of knappur?
blómknappur?
varla...

þó svo afskaplega afskaplega mikið ógert, ólært og óútpælt
kannski ég ætti að hverfa í smá stund

æ mig auma

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Msn= meira svona nördalegt

Við erum stödd í lítilli kjallaraíbúð gs, blá birtan af skjánum lýsir upp uppglennt augun. Á öðrum stað, á sama tíma, situr fyrir framan skjáinn rauðhærð dama, Hrefna að nafni, og pikkar á lyklaborðið. Glugginn opnast hjá þeim báðum, vindurinn feikir þeim um koll og þá hefst leikurinn...


gé sóley says:
það vantar eitt orð hjá þér fröken

Hrefna says:
núhh hvaða orð er það mín kæra?

gé sóley says:
" svo afar andvaka"...

gé sóley says:
"svo afar ERU andvaka"

Hrefna says:
haha já heldur betur

Hrefna says:
geng í þetta

gé sóley says:
svefninn? nei...það er ekki góð hugmynd ða ganga í svefni...

gé sóley says:
gætir slasað þig í hálkunni

Hrefna says:
já sjiiittt... hrikalegt ástand

gé sóley says:
já segðu, maður veit ekki hvað maður á til bragðs að taka

Hrefna says:
nei eða hvort það séu skin eða skúrir ,, él eða hálka... maður spyr sig

gé sóley says:
jáh þetta er rosalegt ...og þú bara syndir og syndir

Hrefna says:
og held mér í hafísinn sem flýtur svo mjúklega

gé sóley says:
eins og lítið lamb á miðri heiði...eitt og yfirgefið, frosið við stein og jarmar svo afkáralega

Hrefna says:
svo ákaflega að það kafnar næstum í eigin ælu... Ælu sem er torrmellt

gé sóley says:
síðustu jörmin benda til þess að það hafi sætt sig við nöturlegan dauðadagann...allt þar til sól rís, hafísinn bráðnar og snjórinn á steininum með...Hrefna flýtur til lands og litla lambið skoppar kátt um hóla og fjöll

Hrefna says:
og segjir: "Er þetta hvalur sem flýtur þarna um ströndina.. eða er þetta dauður Hrafn?"

gé sóley says:
og litla lambið í túninu, litla lambið hennar Ingu Dóru segir meeeee: ,,Nei litla Kiðakið, þetta er

Hrefna. Hrefna með stórum staf í stóru haf-i"

Hrefna says:
Hrefna stendur upp, hóstar og ropar segjir svo hressilega "Hæ ég heiti Hrefna Lind og ég á erindi við þig!"

gé sóley says:
Kiðkið hrekkur í kút, stekkur út í sjó og flýtur frá landi.

gé sóley says:
Kiðakið hrekkur í kút, stekkur út í sjó og flýtur frá landi.

gé sóley says:
Lamb Ingu Dóru starir skelkað á framvindu málsins og hvíslar ofurlágt: "Hvert er erindið"

Hrefna says:
hey má ég setja þessa sögu á bloggið mitt?

gé sóley says:
áttu pening?

Hrefna says:
já hvað villtu mikið?

gé sóley says:
172.313

gé sóley says:
+ aðgang að háhyrningnum


Hrefna says:
æjiii.. ohh þetta er sko höfrúngur og er eiginlega ástin í lífi mínu

Hrefna says:
en ókeyy...

Hrefna says:
Sea World , San Diego í litlu lauginni

Hrefna says:
segðu honum bara að ég sendi þig

gé sóley says:
já ég geri það

gé sóley says:
samþykkt! (og já ps. hún fer líka á mitt blogg en þú færð enga umbun)


Hrefna says:
ha? æji nenniru að gefa mér gardínurnar þarna sem eru á myndinni þinni

Hrefna says:
mér lýst afskaplega vel á þær

gé sóley says:
æjii....ohh þetta er sko gárdínur og er eiginlega ástin í lífi mínu

gé sóley says:
en ókeyy...

gé sóley says:
Sea World, San Diego í litlu lauginni

gé sóley says:
segðu þeim bara að ég sendi þig


Hrefna says:
samþykkt (og já ps. þær fara líka upp í minni stofu og þú færð þær ekki aftur)

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Víst get ég gert allt

...og meira til

Það er allt að komast á fullt skrið núna. Sem er erfitt-en dásamlegt. Erum að tala um það að ég fer út úr húsi korter yfir sex á morgnana og kem heim á miðnætti...eða þannig verður það í næstu viku. Nú leikur lífið alveg hreint við mig og ég þarf ekki að vakna fyrr en sjö! Þvílíkur munaður...

En þetta er allt saman í góðu lagi því ég fann töfraseið einn í teki kennt við apó. Sá seiður kallast Járn og hefur gríðarlega örvandi áhrif á mig. Síþreyta undanfarin ár hefur sem sagt ekki verið vegna þess að ég hef borðað of lítið, sofið of lítið eða ofkeyrt mig...ó nei svei, járnskortur er greiningin.

Teningur!
(sem aðeins fáir útvaldir skilja)

þriðjudagur, 15. janúar 2008

föstudagur, 11. janúar 2008

Risessa

Tveir valmöguleikar. Tvær leiðir. Ein lausn. Dr. Phil eða Oprah?

Vandamál: ósanngirni í garð almúgans, sem í þessu tilviki er ég.
Þolandi: ég...að sjálfsögðu
Gerandi: álverið og tilraunastofan

Hef stækkað um fimm cm síðan í ágúst. Fimm! Og ég sem hef ekki stækkað síðan ég var í 10. bekk og á, samkvæmt endalausum prófunum og ráðum, ekki að geta stækkað lengur. En jú - það hef ég svo sannarlega. Ég er búin að komast að því að ég er ekki með ofvirkan heiladingul, sem getur verið ein ástæðan, þar sem ég er hreinlega ekki nógu klár í kollinum né með nógu stórt höfuð. Eina ástæðan er álverið. Þegar ég var lítil fór ég ekki út í móa að tína ber eins og hinir krakkarnir (það tíndu allir ber á mínum bæ) heldur fór ég askvaðandi út í fjöru að tína "geimsteina". "Geimsteinarnir" voru ekkert annað en álhúðaðir steinar sem hrönnuðust upp í herberginu mínu. Ég er sannfærð um það að æxlið sem var tekið af hnénu á mér og "týndist" á Tilraunastofu Íslands, er tengt þessu máli. Hvaleyraálfurinn hafði einnig undarleg áhrif á mig sem ungabarn og birtist mér í draumum sem skolli.

Hérna um árið varð allt vitlaust þegar stækka átti álverið. Svo ég spyr; hvers vegna í ósköpunum er enginn að berjast fyrir réttindum mínum og hafna stækkuninni?

Til hamingju Ísland, Risessan verður ykkar!

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Af hverju ekki?

Jæja...þá er ævintýrið á enda. Eða kannski rétt að hefjast? Allavega þá mun Mr. Dave flýja land í nótt, ferðast með u.þ.b. tuttugu flugvélum, á milli tuttugu landa og, vonandi, lenda á réttum áfangastað. Það er mjög skrýtið að kveðja svona þegar vinur hverfur út í óvissuna og maður veit ekkert hvar hann endar eða hvað tekur við. En þetta verður magnað, það er ég alveg viss um.
Ég held að Samræður við guð og glimmerarmbandið mitt sé besta veganesti sem hægt er að hafa í svona langferð.

Og þá er bara að byrja að telja niður...44...

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Ógn og skelfing

Skólinn er byrjaður aftur
næstsíðasta önnin mín
sofnaði í öðrum tíma
...og búin að undirbúa mjög meðvitað skróp í fyrsta tíma á morgun.

Eftir að hafa hugsað mjjög heimspekilegar hugsanir í dag hef ég tekið þá ákvörðun að hætta að fara eftir þeim stöðluðu hugsunum um hvað sé "rétt" og hvað sé "rangt". Ég er samt ekkert að fara að hlaupa um nakin og borða börn, neineineineineinei, en allavega að hætta að velta mér endalaust upp úr því hvort það sem ég er að gera hverju sinni sé nógu "rétt" fyrir umheiminn.

Ef ég nenni ekki í fyrsta tíma á morgun (sem er spænska 503 og því mjög skiljanlegt) þá einfaldlega fer ég ekki í hann. Ef ég tími ekki að kaupa skólabækur, þá einfaldlega kaupi ég þær ekki. Mjög einfalt- mjög gott.

Þó auðvitað sé ekkert "einfalt" og ekkert "gott" í raun og veru. Ekkert frekar en "rétt" og "rangt".

En þetta er orðið ansi "djúpt" hjá mér núna svo ég hef hugsað mér að fara að sofa og njóta þess að sofa yfir spænsku.

Adios chicas y chicos...

sunnudagur, 6. janúar 2008

Kjöt II

brunasárið mitt versnar og versnar
tók umbúðirnar af í gærmorgun
...brennda húðin datt öll af

og nú er bara kjöt
eldrautt soðið kjöt
við erum að tala um eilífðarör

ef þið viljið fá að kynnast innræti mínu þá er tækifærið núna
getið fengið að sjá hvernig ég er inn við beinin

friður

laugardagur, 5. janúar 2008

fimmtudagur, 3. janúar 2008

What Child is This?

Er fyndnasta nafn sem ég veit um á jólalagi. Og já- það er í alvöru til jólalag sem heitir þessu nafni. Sé þetta algjörlega fyrir mér: María sveitt og sælleg með Jesú í örmum sínum, Jósep stendur yfir þeim og þá kemur þessi frábæra lína: ,,What child is this?"

Að sjálfsögðu voru þau enskumælandi.

Ég elska börn. Það er líka kannski ekki skrýtið þar sem þau virðast vera allstaðar í kringum mig. Í vinnunni minni er allt morandi í dásamlegum börnum, vinkona mín á besta barn í heimi og núna rétt áðan var ég að horfa á Knocked up. Það er hálfhallærislegt að segja það en ég hef alveg staðið sjálfa mig að verki við óléttubumbumyndanir fyrir framan spegilinn oftar en einu sinni...

Og halló ég er ekkert að fara að eignast barn núna ónei svei attan það geri ég ei. En samt...ég vildi að ég gæti eignast barn og átt það bara stundum, þannig ég gæti samt sem áður látið drauma mína rætast. Það væri samt ljótt...oj já mjög ljótt.

En engar áhyggjur, ég er ekkert á leiðinni að eignast barn. Fæ svona barnakast (sem minnir mimg á dvergakast, sem er mjög fyndið og minnir mig á söguna þegar ég potaði í dverginn sem ég ætla ekki að segja núna því þetta er orðinn ansi langur svigi) nokkrum sinnum á ári og svo jafnar það sig.

En ég elska þau samt.

Barn 1: Hvað er þetta á höndinni þinni?
Ég: Brunasár. Ég var að hjálpa vinkonum mínum og hljóp óvart á ljósaperu þannig að ég brenndi mig.
Barn 1: Ó.
Ég: Já..maður verður að passa sig.
Barn 2 (sem var ekki að hlusta): Hvað er þetta á höndinni þinni?
Barn 1: Þetta er ljósapera, hún var að segja það.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Artí fartí pulsupartí

Já það er komið annað ár. Sem þýðir það að núna er ég víst á 19. ári. Sem þýðir það að núna er ég víst endanlega orðin fullorðin og get ekki notað afsökunina "sko ef ég ætti afmæli í desember þá væri ég tæknilega séð ekki orðin 18 ára og þá væri ég ennþá bara beibí". Sem er ömurlegt.

En til hamingju samt með nýtt ár kæra þjóð, við tórum enn, halelúja!

Ég er með ógeðslegt brunasár á höndinni og enn ógeðslegri umbúðir utan um það sem minna, því miður, helst á bókaplast. Orsökin er ekki flugeldur enda kom ég ekki nálægt þeim andskota, heldur sú að ég hljóp á ljósaperu. Mjög gott Guðrún Sóley, mjög gott.