miðvikudagur, 5. mars 2008

Hið ljúfa líf

Fékk bréf frá listaháskólanum í fyrradag!
draumurinn hefur ræst!
ég á þeim sem sér um stjörnuspá mbl.is margt að þakka þessa stundina!

!!!= gleði gleði
-----

Vaknaði í morgun við dásamlega döggina sem féll létt á nefbroddinn. Í þann mund sem ég rumskaði heyrði ég í klingjandi hljóðinu frá vatninu sem umkringdi mig í þeim sælureit sem ég svaf í. !!!
...þegar ég opnaði augun áttaði ég mig á því að ég var, til allrar óhamingju, í íbúðinni minni. Dásamleg döggin var í raun viðbjóðsleg móðan af glugganum sem hafði umbreytt sér í vatnsflaum sem bókstaflega flæddi niður á mig þar sem ég lá umkomulaus í rúminu. Róandi niðurinn frá vatninu var ekkert sérstaklega róandi þegar ég komst að því, eftir mislukkaða ferð á baðherbergið, að klósettið mitt er bilað. Takkinn datt af og apparatið sem stjórnar öllu saman er í ruglinu. Það er vandamál sem mér hefði aldrei dottið í hug að ég þyrfti að kljást við ein míns liðs. Og því gerði ég það ekki heldur notaði salerni fullorðna fólksins á efri hæðinni. Það var pínu hræðilegt fyrst en svo róaði ég mig og sá kosti þess; heyrist ekkert í því, svo er það líka svo hreint og fínt.

Ég er búin að þurrka burt dásamlegu döggina og í staðinn er nú komin dásamlegt hrúga af þvottastykkjum og eldhúspappír þar sem handklæðin kláruðust og ég hef ekki enn nennt að gera mér ferð í þvottahús fullorðna fólksins á efri hæðinni. Klósettið er enn á fullu, eins og ryksugan..ef ég ætti svoleiðis. Er hætt að heyra í sjálfri mér og óttast að það flæði uppúr svo ég vakni í dásamlegu straumhörðu fljótinu sem ber mig alla leið á hafsbotn...og ég enda í raun í "Dóná"..

Guði sé lof að Dóna-Lísan mín hangir fyrir OFAN klósettið en ekki fyrir NEÐAN. Að hugsa sér, að drekkja Dónu Lísu í Dóná, og mér í leiðinni. Ekki amalegur dauðdagi það, maður kæmist jafnvel kannski á baksíðu Moggans...

Engin ummæli: