Mig langar til að minnast einnar nánustu vinkonu minnar, Jórunnar, í örfáum orðum.
Við Jórunn kynntumst strax og ég kom í þennan heim og því hefur hún fylgt mér síðustu nítján árin. Hún hefur staðið með mér í gegnum súrt og sætt og aldrei kvartað. Ekki nokkru sinni. Ég minnist þess þegar við lékum okkur í grasinu á sumrin, þyrluðum upp laufunum á haustin, sprikkluðum í snjónum á veturna og létum tært loftið leika um okkur á vorin. Það voru góðir tímar.
Fyrir þremur vikum síðan veiktist Jórunn skyndilega. Á einum degi hrakaði henni svakalega og um kvöldmatarleyti leitaði hún læknis. Skelfileg sýking hafði þá herjað á hana og hennar nánasta umhverfi. Læknirinn gat lítið gert, en lét hana fá töflur til að koma í veg fyrir að sýkingin héldi áfram. Töflurnar gerðu lítið gagn og eftir viku var heilsan orðin það slæm að hún leitaði aftur læknis. Úrskurður læknis var sá að strax eftir helgi yrði að rista Jórunni á hol, tæta hana í sundur og myrða með köldu blóði til að bæla niður þessa skelfilegu sýkingu. Og það var og.
Mánudaginn 30. september kl. 8.35 yfirgaf Jórunn þessa jörð og þar með talið mig, æskuvinkonu sína. Ég sakna hennar sárt og hugsa til hennar og samverustundanna okkar á hverjum degi. Í myrkrinu er lítið ljós sem leiðir mig áfram, lítið ljós sem táknar það líf sem nú sprettur fram í stað þíns. Lítil Jórunn vex nú og dafnar og mun, þegar fram líða stundir, koma í þinn stað.
Jórunn, elsku tánögl sem svo lengi hvíldir á stóru tá, megir þú hvíla í friði í rusladalli læknisins.
...
fimmtudagur, 2. október 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þú hefur semsagt ekki fengið að jarða hana eins og hann Árni jarðaði Sæmund Klemensson í sumar?
Blessuð sé minning hennar
frk leynilesandi
Skrifa ummæli