Mig langar svo að komast í splitt! Ég er búin að teygja mig og toga, láta setjast á bakið á mér og ögra þyngdaraflinu en ekkert gengur. Vinstri fóturinn stendur sig mun verr. Hann þvertekur fyrir það að aðstoða mig við þessa nýju áráttu mína.
Ef það er einhver að leita að nýrri Sollu stirðu, eða kannski Sóley stirðu þá er ég til. Er alveg til í að bera bleika hárkollu og dáðst að skoppandi Scheving. Eins var ég að muna eftir barnabók og barnamynd sem voru í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil. Lata stelpan hét þetta og fjallaði um lata stelpu sem nennti ekki að taka til heima hjá sér og þrífa sig. Húsgögnin hennar og allt dótið gáfust upp á henni og gengu út. Undir þessu öllu saman dundi tregablandin klassísk tónlist sem minnti mig alltaf á ballett. Þegar ég lít í kringum mig þá get ég ekki annað en samsvarað mig henni. Að vísu á ég engan kúst sem lifnar við og gengur út og efast um að sængin mín komist út um svefnherbergisdyrnar fyrir drasli.
En ég á diskókúlu. Splunkunýja diskókúlu með mótor sem ég keypti í hinni margumtöluðu Toys 'R' Us. Guð minn góður ef það er ekki mesta vitleysa í heimi þá veit ég ekki hvað. Hef aldrei upplifað annað eins. Við vorum án gríns í 40 mínútur að komast að versluninni! Að maður skuli láta hafa sig í þetta...og fyrir nákvæmlega ekki neitt. Pínumeira dót, það er allt og sumt. Meira ruglið.
Það eina sem mig vantar núna er handlanginn herramaður til að setja hana upp, ekki skemmdi fyrir ef hann væri dansandi diskósjarmör með afró. Og ef hann gæti sest á bakið á mér og þrýst mér niður í splitt. Vá, en rómantískt!
Var þess heiðurs aðnjótandi að vera fyrsta utanaðkomandi pössunarpía Jóels Mána (sem varð einmitt eins árs síðastliðinn miðvikudag). Fékk fullt af barnamauki í hárið, kinnakrem á varirnar og eitt gott atsjú fyrir svefninn. Dásamlegt að eiga við góð börn, jafn dásamlegt og það er ömurlegt að eiga við erfið börn.
mánudagur, 5. nóvember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
ja.
Skrifa ummæli