föstudagur, 23. nóvember 2007

Tölum aðeins áfram um fasismann...

...eða sleppum því bara og leyfðu okkur að hlaupa frjáls um heima og geima!


Ég er að gefast upp á skólanum. Skólaleiðinn hefur herjað á mig að nýju og ég er ráðalaus.

Var búin að ákveða að taka mér pásu á næstu önn og gera eitthvað skemmtilegt við líf mitt, svo hætti ég við það og ætlaði að drífa mig að klára skólann...og nú er ég ráðalaus.


Ég hugsa meira með vinstra heilahvelinu en því hægra. Komst að þessu í gær eftir langar umræður um heilahvel og heilavirkni við móður mína. Þeir sem hugsa meira með hægra heilahvelinu eru mjög góðir í allir rökhugsun, góðir í öllu því sem leiðir að einni lausn, eins og t.d. stærðfræði. Þeir sem hugsa með vinstra heilahvelinu eiga erfiðara með rökhugsun og eru þar af leiðandi lélegri í stærðfræði, hugsa meira út fyrir rammann, eru listrænni og meira skapandi og eiga það til að gera hluti sem þeir sem hugsa meira með hægra heilahvelinu myndu ekki láta sér detta í hug.


Fórnarlamb dagsins er Guðrún Sóley. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það stærðfræði. Ég skil ekki stærðfræði og hún ekki mig. Okkar leiðir munu aldrei, og þá segi ég aldrei, liggja saman. Ég hugsa ekki mjög rökrétt og á t.d. afskaplega erfitt með að meðtaka þau skilaboð frá föður mínum (hægra heilahvel ríkjandi) að bíllinn minn muni bræða úr sér einn daginn þar sem u.þ.b. fimm göt eru á púströrinu, hljóðkúturinn (sem datt undan fyrir tæpum tveimur mánuðum) er enn í skottinu, tímareimin að renna sitt skeið og rafgeymirinn ónýtur. Móðir mín hinsvegar (vinstra heilahvel) segir að ég eigi að ráða þessu, ef ég vilji taka strætó það sem eftir er þá sé það mín ákvörðun. Ég (vinstra heilahvel) tel að með góðum hugsunum, straumum, ást og umhyggju getum við, ég og bíllinn, sigrast á vandanum án allra viðgerða og peningaplotts frá fátækum námsmanni og listaspíru. Það hefur virkað hingað til þrátt fyrir að hann hafi tekið sér frí víðsvegar um bæinn á ólíklegustu augnablikum, sem hefur uppskorið einskæra kátínu hjá föður (hægra heilahvel) og móður (vinstra heilahvel) fórnarlambsins (vinstra heilahvel).

Allur minn tími fer í að skapa og þannig hefur það alltaf verið. Sköpun ofan í sköpun og brátt mun hún leiða eitthvað stórkostlegt af sér, sem hún hefur reyndar fyrir löngu gert. En svona er þetta...rökhugsunin ekki að gera sig hjá mér en það er allt í lagi, ég þarf ekkert á henni að halda og ef ég þyrfti einhverntíma lífsnauðsynlega á henni að halda þá getur faðir minn séð um hana fyrir mig.



Engin ummæli: