fimmtudagur, 27. desember 2007

oj

mig dreymdi að ég væri ólétt.
missti vatnið.
það var ógeðslegt.

miðvikudagur, 26. desember 2007

Sóley og gallarnir þrír

samanber Gullbrá og birnirnir þrír...

Sóley hét stúlka ein ljúf og góð. Hún bjó á bæ einum er kallast Siggukot í Gullbringusýslu. Sóley var jólabarn mikið, yndisleg stúlka sem ætíð var foreldrum sínum til sóma. Eftir að hafa notið aðfangadags í faðmi fjölskyldu sinnar ákvað hún að kvöldi jóladags að halda í för út í snjóinn sem umlukti bæinn. Ætlun hennar var að byggja gríðarstóran karl úr snjó, svokallaðan sjókarl. Lítið jólabarn braust fram í ungu stúlkunni og braust það svo harkalega fram í henni að það ímyndaði sér að snjógallinn, sem keyptur var á það er það var 11 vetra, myndi enn passa. Ritari barnsins minnir lesendur á það að barnið er í dag 18 vetra gamalt og eilítið öðruvísi en fyrir 7 árum síðan. Barnið hljóp á harðaspretti út í kofa einn er stóð hjá bænum, gróf upp fagurgulan galla, svokallaðan snjógalla, og stóð þar stjarft af undrun. Viðstaddir skríktu af kátínu er barnið kom aftur inn í húsið aftur með gallann í höndum sér. En þar sem barnið lætur ekki segja sér fyrir verkum þá ákvað það samt sem áður að fara í gallann. Eftir að hafa storkað öllum lögmálum og kenningum þessarar veraldar þá tókst það!Litla jólabarnið renndi stolt upp rennilásnum en í skóna komst það aldrei. Gallinn var of þröngur og lögmálið um skóna of flókið fyrir óþroskað jólabarnið. Móðir barnsins rétti fram hjálparhönd sína og dróg fram skíðabuxur og úlpu af hjálparhellunni. Litla barnið mátaði það en var heldur ósátt, þar sem hætta var á því að snjórinn kæmist inn á milli úlpu og buxna. Eftir vangaveltur og rökræður fór litla barnið úr móðurklæðunum. Í þetta skiptið leitaði það ráða hjá föður sínum, viskubrunni heimilisins, sem var fús til að lána sinn galla. Risavaxinn snjógalli frá tíma diskódansins, með mittisbelti og mislitum formum skaust út úr einni skúffunni og vafði ermum sínum um litla umkomulausa barnið. Gríðarstór gallinn huldi það frá toppi til táar og ekki var laust við að lítið bros léti sjá sig á dúðuðu andliti litla jólabarnsins þegar því var litið á stærðarmun á minnsta gallanum, mömmugallanum og svo pabbagallanum. Skemmst er að segja frá því að för litla jólabarnsins út í snjóinn gekk vonum framar og kom það inn eftir dágóða stund, með roða í kinnum og bros á vör yfir vel heppnuðum snjókarli.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Svaf til þrjú í dag.
ÞRJÚ!
Það er ekki líkt mér...raunar mjög ólíkt mér.

Ástæðan var sú að ég var alltaf að bíða eftir því að diskó-vekjaraklukkan mín myndi hringja, sem var stillt á 11, en hún hringdi aldrei. Vildi ekki missa af því að vera vakin upp með brjáluðu partýstuði á jóladag.

Hóhóhó

Gleðileg jól

ég elska ykkur öll
...já öll

laugardagur, 22. desember 2007

Skollabuxur

...eru eitthvað sem ég man ekki hvað er.

En hinsvegar eru jól ekki á morgun heldur hinn. Það er eitthvað sem maður á seint að gleyma í þessu þjóðfélagi. Jólajólajóla...rosa stuð. Ég er ekki búin að gera neitt og er stolt af því. Búin að kaupa eina jólagjöf, ekki búin að taka til, ekki búin að skreyta almennilega og látið ykkur ekki detta í hug að ég fari að baka fyrir jólin.

En ég fékk pakka í gær!! Og fékk að opna hann strax. Flottasti jólapakki í heimi. Við erum alveg að tala um bleika diskókúlu sem er vekjaraklukka...og hún blikkar og spilar eitthvað lag til að vekja mann. Vá það verður ótrúlega mikið fjör hjá mér að vakna á morgnana framvegis.

Þetta verða þá kannski þrátt fyrir allt smá diskójól með Diskó-Sól(ey) í jólakjól...

miðvikudagur, 19. desember 2007

Sönn ást

...en bara í dag.

Var í mistöð græðginnar áðan að reyna að gera jólainnkaupin. Það eina sem ég uppskar voru fullt af kertum handa sjálfri mér og kveikjari - ónýtur kveikjari. Þannig nú á ég fullt af kertum en engan kveikjara. Jei.

Regína: Anna, gefðu GS svona í jólagjöf (sýnir henni skó)
Ég: Ha? Nei oj.
Regína: Ó þú varst þarna hahaha...
Ég: Já eins gott, þeir eru ógeðslega ljótir..með hauskúpum! Ég hata hauskúpur.
Regína: Ég hélt að þú elskaðir hauskúpur
Ég: Ha, ég...af hverju!?
Regína: Bara, ég meina þú ert með á þér núna...
Ég: Ha nei! Hvar er ég með hauskúpu á mér? Regína, hvar er ég með hauskúpu!?!
Ókunnug kona fyrir aftan: Á hausnum á þér...

þriðjudagur, 18. desember 2007

Kindin Svava



Látið ekki blekkjast! Þessi hér að ofan er ekki Goggi mega úr Latabæ heldur engin önnur en kynbomban, háskólastúdínan, íþróttanördið en þó aðallega litla frænka mín Svava Lind á afmæli í dag.




...loksins orðin 18 ára...við vitum öll hvað það þýðir...

Googlaði dömunni í tilefni dagsins og fann þessar dásamlegu myndir. Klöppum fyrir því.
Og smá kveðskapur að fornum sið:

Hún á afmæli í dag frænkan mín
voðalega sæt og fín
með lítið hár en fullt af þvagi
eftir bílslys á hálsinn var settur kragi

Hún er geðveik gella og fílar alla
bæði börn og dýr, konur og kalla
Stundum stríðin en oftast góð
þykist vera rosa fróð

Svava frænka af sér rakaði allt hár
í frænkuboði varð mikið fár
teknar myndum af frænkum tveim
ég veit ei hvað orðið hefur að myndunum þeim

,,Hún er með mikið og hin ekki neitt"
þetta var ekki gaman, mér þykir það leitt...
Rosa töff að góna og glápa
inní skápa að kyssa stráka?
En það skiptir ekki máli því hún er kúl
ofurhress og aldrei fúl
gengur í stofnun H-áa og mikla
fær vöðva nördanna til að hnikla
Og nú er gleði og rosa gaman
allir að dansa og syngja saman
nema ein sem situr heima
með reikandi huga og lætur sig dreyma

Um betra líf á betri stað
hvenær, hvar, og hvað með það?
En Svava mig áfram kætir og bætir
sjáðu frænka, þeir eru ætir
Og við átum köku og drukkum kók
saklausar stúlkur fá sér aldrei smók
dönsuðu og dilluðu af gömlum sið
frænka! til hamingju með afmælið!!
vá þetta var u.þ.b. það glataðsta sem eg hef gert...en þú veist það var frá hjartanu...eða eitthvað. Allavega...til hamingju. Jei.








sunnudagur, 16. desember 2007

Til hamingju

Allir þeir sem hafa á einhvern hátt reynt að troða upp á mig jólaskapi, jólalögum, jólagleði og óskum um gleðileg jól. Ykkur hefur tekist það. Ég er búin að skreyta.

Öll mín plön um diskó-jól hjá Diskó-Sól í diskókjól hafa orðið að engu. Þeirra í stað er komin á ról Jóla-Sól í jólakjól með eyrnaskjól.

Fékk nett taugaáfall í gærkvöldi þar sem ég stóð í miðju öngþveitinu í Smáralind, innan um jólasveina, jólahúfur og jólalög...tilefni taugaáfallsins er mjög einfalt: það eru jól næstu helgi. Jább við erum að tala um það að á mánudaginn eftir viku er aðfangadagur. Og svo helgina eftir það eru áramót. Og fyrr en varir eru allir mínir kærustu búnir að flýja land og ég sit ein eftir með sárt ennið og hallærislegt jólaskraut upp um alla veggi. Já það er svo sannarlega gaman að þessu.

föstudagur, 14. desember 2007

Hann var svona hvítur eins og dós...

Af hverju ert þú alltaf að reyna að vera fínust?
Ha? Finnst þér ég alltaf vera að reyna að vera fínust?
Já.
Og finnst þér ég vera fínust?
Nei.

------------
Og áhorfendur tryllast í salnum

------------

Ég vil fá að þakka okkar dásamlega landi fyrir hið dásamlega veðurfar sem hefur einkennd suðvestur hornið síðustu daga. Það er þér að þakka, kæra Ísland, að ég svaf ekki í eina einustu klukkustund í alla nótt. Reyndar var það pínulítið Særúnu að þakka og mér...eiginlega mest okkur...að þakka já. En ég fékk klukkutíma lúr í morgunsárið og er svo búin að vera á spani í allan dag. Ekkert jafnast á við það...lalala...sólbað...eða ekki.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Ómeðvituð ást?


var að vakna upp frá svakalegum draumi...verst bara að hann skuli ekki hafa verið alvöru.

Var að skemmta á einhverri jólaskemmtun sem Baktus og á móti mér var félagi minn að leika Karíus (gaman að segja frá því að ég skrifaði fyrst Kaktus). Við vorum uppi á sviði að borða sykur og tala við krakkana og ég var að spila á fiðluna mína. Svo þegar við erum búin förum uppí hús til að skipta um föt og þegar ég er komin úr hálfum búningnum opnast dyrnar og Hugh Grant kemur inn! Ég stend þarna hálfstjörf á leggings og hálfum Baktusbúningnum og stari á hann. Hann horfir á mig og kemur svo til mín (ég stóð uppi á smá palli) og bítur laust í hnéð á mér. Ég fríka út og spyr hvort einhver sé með myndavél og þá kemur einhver pía með vídjóvél og myndar þetta allt saman. Svo hættir Hugh að bíta og við hlægjum eitthvað að þessu og spjöllum saman. Svo spyr hann mig hvort ég geti aðstoðað hann aðeins og ég jánka við því enda neitar maður Hugh Grant ekki um aðstoð sína...eða þið vitið. Svo þegar komið er að því að hjálpa honum átti ég sem sagt að rúlla honum uppá svið því hann var að fara að halda eitthvað uppistand þar sem hann átti að koma rúllandi inn. Ég hjálpa honum að komast upp stigana og rúlla honum svo inná sviðið og um leið og ég sleppi af honum takinu og sný mér í átt að útganginum á sviðinu þá breytist ég í Geir Ólafs! Og ég var þarna Geir Ólafs í svona korter á meðan ég var að klæða mig úr búningnum. Sem var frábær upplifun...
Svo þegar ég er komin úr og Hugh búinn með uppistandið stendur hann þarna álengdar og horfir á mig, ég fer öll hjá mér og geng til hans og ætla að fara að tala við hann. Fatta þá mér til mikillar skeflingar að ég gleymdi að fara í föt og stend þarna á nærbuxunum einum. Hann hlær og segist aðeins þurfa að skreppa. Á meðan klæði ég mig og hugsa upp hvernig ég eigi nú að segja öllum sem ég þekki frá þessu öllu saman. Svo þegar ég er komin í fötin fer ég að skima eftir honum en finn hann hvergi. Og þá vakna ég.

Bömmer

mánudagur, 10. desember 2007

Ælandi smástirni

Ælandi smástirni eftir Guðrúnu Sóley

Augu hennar voru svört...eins og sálin.

Eru ekki allir í stuði!?!?!
Það var allt með ráðum gert...
Ne me quitte pas...

Hann var svona eins og Guðmundur...
Halelúja!

Og þá kom rigning og Kalli litli datt

Tölum aðeins áfram um fasismann...

Hún
Látið ekki blekkjast
Bara smá

Næstum fundinn...

Einkamál
Nei ekkert vera að spila meira

Fjallganga

Símon segir...
Fólskuleg árás á gervihnattaöld

Diskó-Sóley
Já svona hundrað og sjötíu

Mér þykir það leitt...
Hún hevur nakad týdningarmikið at sigja
Fíllinn hann faðir minn

Ég held ég sé hætt
Hlauptu Jónas

helvítis Barcelona
Esta en Barcelona
Skósólasósa
Dvergurinn Bergur

Nenni ekki að syngja...úps ég meina syrgja
Þolir þú meiri sorg?
Óljúfa líf

Ég vild'ég væri...
Mona Lisa

Hugleiðsla
Bökurnarpappír? Bökunarpartý?
Gefstu upp?

Kjöt
Artí

Brauð
dauði

Kleinur
Bara fyrir Báru

Mr. Bojangles
Dugnaður

Og nú byrja ég aftur

Fráhvarfseinkennin...
Heim úr dalnum

Gríma er stór og loðin
Gleði gleði...

De er rode de er hvide
Það er gaman...

Yo


-----------------

kemur út á bók fyrir jól
og ef þið hafið ekki fattað það þá er ljóðið samið úr færsluheitunum á þessari mögnuðu síðu, í réttri röð.

Sumum er það bara meðfætt að yrkja...

Augu hennar voru svört...eins og sálin

sálin sem hún þráði
en fékk aldrei

sunnudagur, 9. desember 2007

Eru ekki allir í stuði!?!?!




Mér gekk vel í frönsku.


Mér gekk ótrúúúlega vel í listasögu.


Mér hefur aldrei gengið jafn vel í lokaprófi eins og í félagsfræðinni.


Og nú er bara saga eftir.


Bara saga?


Nei...það er ekkert bara. Var að uppgötva það mér til mikillar skelfingar að ég keypti víst aldrei bókina. Þannig ég er bókarlaus. Og brókarlaus...eða svona næstum.


Og svo voru tónleikar á laugardag. Sem gengu mjög vel. Jei.





Þó hef ég lært sitthvað síðustu daga.



  • Okkar ástkæra Dorrit á ekki heima í Indlandi og því er það henni ekki eðlislægt að borða hrísgrjón í morgunmat.

  • Litli-Dvergur er ekki gáfuleg ofurhetja þegar vatnið er of heitt

  • Börn geta verið mjög mjög mjööög orkurík og sooooooga alla orku frá manni á mjög skömmum tíma.

  • Þau þroskast og stækka mjög fljótt. Of fljótt.

  • Stundum verður maður bara að kunna jólalögin, hvort sem manni líkar betur eða verr

  • Svefn er nauðsynlegur, þó svo að maður hafi ekki tíma

  • Viltu athygli? Fáðu þér marblett


oooog húllerassihía húllerassihí gúgú gúgú húllerassihía hú











þriðjudagur, 4. desember 2007

Það var allt með ráðum gert..

...að byrja að læra mjög mjög seint í gærkvöldi.

Í dag er ég hinsvegar búin að vera nokkuð dugleg. Tókst að lesa mig og glósa í gegnum 1000 powerpoint glærur sem tók alltof alltof langan tíma...en það gekk.

Hinsvegar er ég ekki búin að læra neitt undir frönsku sem ég er víst að fara í í fyrramálið. Búin að sannfæra sjálfan mig um það að í stað lærdóms sé betra að hlusta nógu oft á Ne me quitte pas, La mer og Edith Piaf. Svo er ég búin að vera mjög frönsk í hugsun og mjög petit í öllum hreyfingum. Vona að það skili mér góðu gengi í prófinu á morgun.

Nýtt æði hefur heltekið mig, vaknaði í morgun með stórkostlega löngun í að fara að æfa samkvæmisdans. Cha-cha-cha, Tangó og hvað þetta heitir nú allt saman. Sé það samt alveg fyrir mér, öll ástföngnu pörin dansandi að gefa hvort öðru undir fótinn á meðan ég, gellan sem mætti án félaga, dansa við kennarann sem er sjötug kona með úrelta hárgreiðslu. Þannig að...

dadararaddadaaaa

Ég auglýsi hér með eftir ungum herramanni sem er til í að dansa, og ekki væri nú verra ef hann kynni eitthvað smá fyrir sér í þeim efnum. Sjálf var ég nú á dansnámskeiði þegar ég var fimm ára...


Elle: Jean...Ne me quitte pas, je t'aime!
Il: Je dois aller mon amoureux...
Elle: Je mourrai si vous allez
Il: Alors vous devez mourir, je suis désolé
Elle: Non! Non...ne me quitte pas!

Il part...


Hún: Jean...Ekki fara frá mér, ég elska þig!
Hann: Ég verð að fara mín heittelskaða...
Hún: Ég dey ef þú ferð
Hann: Þá verðurðu að deyja, mér þykir það leitt
Hún: NEI! Nei...ekki yfirgefa mig!

Hann fer...





mánudagur, 3. desember 2007

Ne me quitte pas...

Svolítið skondið að ég hafi komist í gegnum þessa önn án þess að kaupa eina einustu skólabók. Það hefur falið í sér gríðarlegan sparnað og ánægju meðal fátæku námskvinnunnar. Tvö próf ekki á morgun heldur hinn og enn er ég ekki byrjuð að læra.

Gefur kannski til kynna áhuga minn á skólanum...

En núna er ég búin að ákveða hvað ég ætla að gera (örugglega í hundraðasta skipti...). Tók góðan tíma í það að skoða skóla úti í heimi í gær og er búin að prenta út fjöldann allan af umsóknum (eða reyndar enga, fattaði nefnilega að ég á ekki prentara...en þetta hljómar rosa vel; prenta út fjöldann allan af umsóknum, svo ég leyfi því að standa) og orðin mega spennt.

Ætli ég byrji ekki í skólanum á næstu önn og sjái svo bara til hvað gerist...

Annars væri nú alveg ágætt og vel viðunandi ef einhver myndi sjá sóma sinn í því að rita nafn sitt hér að neðan og tilkynna um komu sína á þetta annars líka ágæta vefsvæði...

sunnudagur, 2. desember 2007

Hann var svona eins og Guðmundur...

Barn í Blómaval: Hæ..ert þú Rut?
Grýla í Blómaval: Nei ég er ekki Rut. Ég er Grýla.

Hey já hæ þú vó gaman að sjá þig hey gleðileg jól! Fólk er alltof alltof ALLTOF hresst og jólalegt þessa dagana. Fór á laugarveginn í gær og hvert sem ég leit var fólk að knúsa og kjassa vini og vandamenn og óska þeim gleðilegra jóla. HA? Bíddu...var ekki 1. desember?
Ég ætla að taka uppá því að óska fólki til hamingju með afmælið mánuði áður en það á afmæli.

Í fyrradag voru allir ,,næstum í jólastuði" og hafa lýst því yfir síðan í júlí.

Bylgjan, næstum í jólaskapi!

En svo í gær BÚMMM jólasprengjan sprakk yfir bæinn og umkomulausir þorpsbúarnir gerðu heiðarlega tilraun til þess að flýja. Því miður voru öll gistihúsin full og því þurftu þau að flýja í fjósið...en þar lenti sprengjan einmitt.

Bylgjan með þér í jólastuði! Hóhóhó og gleðileg jól!

Nei..ég er ekki í jólastuði og ég hef engan áhuga á því að hlusta á jólalög í 24 daga til að koma mér í ,,jólagírinn". Móðir mín kom til mín í gær, með bros á vör og hendur fyrir aftan bak. ,,Hvað?" spurði ég í sakleysi mínu enda ekki vön að sjá móður mína með hendur fyrir aftan bak. ,,Ég keypti handa þér jóladagatal!" sagði hún sigrihrósandi og rétti fram Tanna og Túpu jóladagatal. Vá! Frábært! Æðislegt! Hóhóhó og gleðileg jól!


Ég ætla ekki að setja upp jólaseríu og ég ætla ekki að setja upp jólatré. Ég er á móti jólatrjám. Hundruðir trjáa eru myrt í desember svo að sæta litla fólkið geti skoppað í kringum það í viku og brennt það svo eða hent því út á götu. Mmm finnurðu jólailminn af jólatrénu elsku litla jólabarn, sagði jólasveinninn og kveikti í jólalega jólatrénu.

Í stað þess ætla ég að hafa diskóþema í minni íbúð yfir jólin. Allir elska diskó, meira að segja strumparnir, og við því er ekkert hægt að segja. Diskókúlan verður hengd fyrir ofan loðið dansgólfið þar sem sveittar diskódívur og diskódúddar munu hrissta stuttbuxnabossana og þeysast um á skræpóttum hjólaskautum.

Þannig að þið jólafólk getið tekið ykkar jólaseríur, jólatré, jólalög, jólakökur og jólajólajól með ykkur og sleppt því að troða því framan í mig. En hinsvegar er í góðu lagi að skilja jólahjólið eftir, það gætir reynst okkur diskófriskó fólkinu vel á komandi diskóhátíð.

Takk fyrir mig og gleðileg jól.