samanber Gullbrá og birnirnir þrír...
Sóley hét stúlka ein ljúf og góð. Hún bjó á bæ einum er kallast Siggukot í Gullbringusýslu. Sóley var jólabarn mikið, yndisleg stúlka sem ætíð var foreldrum sínum til sóma. Eftir að hafa notið aðfangadags í faðmi fjölskyldu sinnar ákvað hún að kvöldi jóladags að halda í för út í snjóinn sem umlukti bæinn. Ætlun hennar var að byggja gríðarstóran karl úr snjó, svokallaðan sjókarl. Lítið jólabarn braust fram í ungu stúlkunni og braust það svo harkalega fram í henni að það ímyndaði sér að snjógallinn, sem keyptur var á það er það var 11 vetra, myndi enn passa. Ritari barnsins minnir lesendur á það að barnið er í dag 18 vetra gamalt og eilítið öðruvísi en fyrir 7 árum síðan. Barnið hljóp á harðaspretti út í kofa einn er stóð hjá bænum, gróf upp fagurgulan galla, svokallaðan snjógalla, og stóð þar stjarft af undrun. Viðstaddir skríktu af kátínu er barnið kom aftur inn í húsið aftur með gallann í höndum sér. En þar sem barnið lætur ekki segja sér fyrir verkum þá ákvað það samt sem áður að fara í gallann. Eftir að hafa storkað öllum lögmálum og kenningum þessarar veraldar þá tókst það!Litla jólabarnið renndi stolt upp rennilásnum en í skóna komst það aldrei. Gallinn var of þröngur og lögmálið um skóna of flókið fyrir óþroskað jólabarnið. Móðir barnsins rétti fram hjálparhönd sína og dróg fram skíðabuxur og úlpu af hjálparhellunni. Litla barnið mátaði það en var heldur ósátt, þar sem hætta var á því að snjórinn kæmist inn á milli úlpu og buxna. Eftir vangaveltur og rökræður fór litla barnið úr móðurklæðunum. Í þetta skiptið leitaði það ráða hjá föður sínum, viskubrunni heimilisins, sem var fús til að lána sinn galla. Risavaxinn snjógalli frá tíma diskódansins, með mittisbelti og mislitum formum skaust út úr einni skúffunni og vafði ermum sínum um litla umkomulausa barnið. Gríðarstór gallinn huldi það frá toppi til táar og ekki var laust við að lítið bros léti sjá sig á dúðuðu andliti litla jólabarnsins þegar því var litið á stærðarmun á minnsta gallanum, mömmugallanum og svo pabbagallanum. Skemmst er að segja frá því að för litla jólabarnsins út í snjóinn gekk vonum framar og kom það inn eftir dágóða stund, með roða í kinnum og bros á vör yfir vel heppnuðum snjókarli.
miðvikudagur, 26. desember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
þetta er æðislegt!
Skrifa ummæli