Barn í Blómaval: Hæ..ert þú Rut?
Grýla í Blómaval: Nei ég er ekki Rut. Ég er Grýla.
Hey já hæ þú vó gaman að sjá þig hey gleðileg jól! Fólk er alltof alltof ALLTOF hresst og jólalegt þessa dagana. Fór á laugarveginn í gær og hvert sem ég leit var fólk að knúsa og kjassa vini og vandamenn og óska þeim gleðilegra jóla. HA? Bíddu...var ekki 1. desember?
Ég ætla að taka uppá því að óska fólki til hamingju með afmælið mánuði áður en það á afmæli.
Í fyrradag voru allir ,,næstum í jólastuði" og hafa lýst því yfir síðan í júlí.
Bylgjan, næstum í jólaskapi!
En svo í gær BÚMMM jólasprengjan sprakk yfir bæinn og umkomulausir þorpsbúarnir gerðu heiðarlega tilraun til þess að flýja. Því miður voru öll gistihúsin full og því þurftu þau að flýja í fjósið...en þar lenti sprengjan einmitt.
Bylgjan með þér í jólastuði! Hóhóhó og gleðileg jól!
Nei..ég er ekki í jólastuði og ég hef engan áhuga á því að hlusta á jólalög í 24 daga til að koma mér í ,,jólagírinn". Móðir mín kom til mín í gær, með bros á vör og hendur fyrir aftan bak. ,,Hvað?" spurði ég í sakleysi mínu enda ekki vön að sjá móður mína með hendur fyrir aftan bak. ,,Ég keypti handa þér jóladagatal!" sagði hún sigrihrósandi og rétti fram Tanna og Túpu jóladagatal. Vá! Frábært! Æðislegt! Hóhóhó og gleðileg jól!
Ég ætla ekki að setja upp jólaseríu og ég ætla ekki að setja upp jólatré. Ég er á móti jólatrjám. Hundruðir trjáa eru myrt í desember svo að sæta litla fólkið geti skoppað í kringum það í viku og brennt það svo eða hent því út á götu. Mmm finnurðu jólailminn af jólatrénu elsku litla jólabarn, sagði jólasveinninn og kveikti í jólalega jólatrénu.
Í stað þess ætla ég að hafa diskóþema í minni íbúð yfir jólin. Allir elska diskó, meira að segja strumparnir, og við því er ekkert hægt að segja. Diskókúlan verður hengd fyrir ofan loðið dansgólfið þar sem sveittar diskódívur og diskódúddar munu hrissta stuttbuxnabossana og þeysast um á skræpóttum hjólaskautum.
Þannig að þið jólafólk getið tekið ykkar jólaseríur, jólatré, jólalög, jólakökur og jólajólajól með ykkur og sleppt því að troða því framan í mig. En hinsvegar er í góðu lagi að skilja jólahjólið eftir, það gætir reynst okkur diskófriskó fólkinu vel á komandi diskóhátíð.
Takk fyrir mig og gleðileg jól.
sunnudagur, 2. desember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli