Þegar ég var lítil hélt ég því alltaf fram að kisan mín hún Monsa, sem allir aðrir kölluðu Nölu en ekki ég því ég var í uppreisn, væri í raun langamma mín sem hafði dáið nokkrum árum áður. Það veitti mér óneitanlega mikla huggun að hugsa til þess að amma væri alltaf hjá mér. Viðbrögð mín yfir endurteknum pissublettum ömmu á koddanum mínum ollu því hinsvegar að ég missti trúna.
Ég hef alltaf verið afskaplega svöl. Þetta hófst allt í þriðja bekk, en það var jú einmitt þá sem járnbrautateinar, gómar, spengur og beysli gerðu innrás á kjaftinn á mér með þeim afleiðingum að ég varð miðpunktur athyglinnar. Gleraugun í tólf ára bekk sögðu einnig sitt en það var einmitt þá sem draumur minn um svölu gelluna með teina, gleraugu og heyrnatæki rættist...reyndar varð heyrnatækið að bíða þar til seinna.
Það var viðurnefnið Gugga, Mikka mús smekkbuxurnar, sítt hár í tígó, pox-myndir, glerkúlur, teygjubyssur og hjólabrettið mitt sem mörkuðu upphaf "svala skeiðisins" hjá mér. Ég var á toppi tilverunnar þar sem ég þaut um göturnar með öllum strákavinum mínum, með glerkúlur og pox í öðrum vasa og ólöglega teygjubyssu í hinum. Hinar stelpurnar völsuðu um í bleikum strigaskóm með blikki og fóru í snú-snú, en ég var að sjálfsögðu alltof svöl fyrir slíkt.
Það leið ekki á löngu þar til eitthvað breyttist og allt í einu voru smekkbuxurnar ekki hipp og kúl lengur heldur smellubuxur. Hjólabrettið fór út í bílskúr og línuskautarnir voru dregnir fram. Árbæjargengin benda enn á afturendann á mér og hlægja eftir fyrstu lífsreynslu mína í smellubuxunum, sem átti sér jú einmitt stað í klifurgrindinni hjá Nóatúni í Árbænum. Við skulum segja að smellurnar hafi ekki haldið...
Næst á eftir smellubuxunum var það svo bleikur plastleðurjakki, buffaloskór og vafflað hár að hætti Spice Girls. Það var einstaklega töff, svo töff að ég ristarbraut mig. Ég trúði því statt og stöðugt að ég hefði komið Spice Girls á kortið hérna heima þar sem ég fékk afar svalan magabol, leggings og myndir sent frá Ameríku, fyrst af öllum að ég hélt. Allt í einu var ég komin í gengið með snú-snú stelpunum því nú var ekki töff að eiga strákavini. "Viltu byrja með mér?" miðar leyndust í vösum allra og sambandsslit voru daglegt brauð. Fyrsta "unlingabólan" birtist á miðju enninu á mér og þó svo að þetta hafi ekki verið bóla, heldur einfaldlega sár sem ég kroppaði svo mikið að það var farið að bólgna út og leit því út eins og bóla, þá kom ég mannskapnum í trú um það að um alvöru unglingabólu væri að ræða. Gugga Unglingabóla var klárlega svalasta viðurnefnið í sjöunda bekk og fólk fór sérferðir stofanna á milli til að líta bóluna augum.
15.000 króna gallabuxur, rassaskorur og magabolir einkenndu fyrstu árin í unglingadeildinni. Allt í einu voru unglinabólur "ógeð" og "ómægad". Allir öfgatöff í Sautján og Deres að eyða aleigu foreldranna. SPK, Prósentuleikurinn og Vangakeppnir tóku við af saklausum eltingaleikjum og "Viltu byrja með mér" miðarnir þróuðust frá miðum til orða og þaðan út í sms. Þá var það Guðrún, ekki Gugga, bara Guðrún. Sóley fannst mér einum of mikið.
Í tíunda bekk héldu svo allir að ég væri komin í ruglið. Sögur gengu um skólann af því að ég væri farin að reykja eitthvað, ég hefði fengið taugaáfall eða að ég væri dottin'í ða eins og það kallaðist á fullorðinsmáli okkar táninganna. Ég gekk um skólann, heví töff, í hippapilsunum mínum, ponsjói og hljómsveitarbolum með Bob Marley í eyrunum. Rebell skólans. Gé-Sóley var viðurnefni rebelsins sem gekk um gangana með viðeigandi "vóóóó" hljóðum til hliðanna. Ráðalausar tilfinningaflækjurnar vissu ekki sitt rjúkandi ráð og á tímabili var ég úskúfuð frá vinahópnum fyrir að hafa hafnað ástkærum vini þeirra, Diesel. Ég lét það lítið á mig fá og ekki leið á löngu þar til þær tóku mig í sátt aftur, og enn á ný var ég orðin öfgakúl og spurningar eins og ,,Hvað kom eiginlega fyrir þig?" ,,Hvernig þorirðu þessu?" ,,Hefurðu reykt hass?" voru daglegt brauð. Allir elskuðu mig og ég elskaði alla. Svona eins og Adam og synir hans.
Fyrsta árið í menntó var svakalegt. MH- þar sem artí fartí listaspýrur gengu um í lopapeysum og átu spelt. Fyrsta önnin er í móðu en við skulum segja að það hafi verið mikið um tilraunir í fatastíl á þessum árum...Guðrún Sóley var viðurnefnið. Bara það. Ekkert annað. ,,Ég var skírð það, ef þú segir Guðrún þá svara ég ekki..." Það var þá sem nöfn eins og Guðmundur Jónsson, Sólveig Ásgeirsdóttir og Brynhildur Halla Guðmundsdóttir voru öfgakúl.
Ég held það sé fyrst núna sem ég sé búin að átta mig á því hver ég er...svona nokkurn veginn. Samt er ég ekkert alltof viss, fyndið hvernig manni finnst maður alltaf vera hipp og kúl og er það samt svo ekki nokkrum árum síðar. Guðrún Sóley, Guðrún, Sóley, Gugga, Gugga Solla, Gugga risi...skiptir ekki máli, þú velur.
sunnudagur, 17. febrúar 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli