föstudagur, 15. febrúar 2008

Sorgleg

Vá það er fyndið að lenda óvart á deiti á valentínusardaginn
ekki gera ykkur neinar vonir, það gerðist ekki fyrir mig.

Þó fékk ég hlýtt bros og innilegar kveðjur um góða nótt frá vitstola manni í Krambúðinni á Skólavörðustígnum.

Það var þó ekki þar sem Valentínusardagurinn minn, sem ég hef blótað í sand og ösku síðan ég man eftir mér (að undanskildu einu skipti, en þá fór hann gjörsamlega framhjá mér og ég gleymdi að bölva honum eftir á) , byrjaði...

Lagnó í skólanum hófst í gær. Þar sem ég er ofurkúl sat ég á rassinum á ofursvala kaffihúsinu og þóttist vera merkileg...allan daginn. Í morgun, ákvað ég hinsvegar, að sofa örlítið út, svona svo pósturinn hefði nú undan að dæla ástarbréfunum inn um lúguna...

Eftir nokkurra tíma lesningu hélt ég í skólann, viðbúin því að mæta á fyrirlestur hjá Þorgrími Þráins stórvini mínum og uppáhalds barbídúkku, og læra allt um það hvernig ég ætti að gera konuna mína hamingjusama. Einungis í tilefni af elsku minni á manninum var ég búin að útbúa spurningalista í kollinum mínum til að reyna að gera hann kjaftstopp. Þ.e. ég var búin að finna spurningar eins og;

Þorgrímur, hver ertu eiginlega?!?

Þorgrímur, hefur konan þín alltaf verið hamingjusöm?!?

Ef svo er, út frá hverju skrifarðu þá bókina?!?

...og fleiri spurningar, fleiri illar spurningar, en þó allt í góðu og einungis vegna elsku minnar á honum, eins og áður sagði.

Barbí mætti ofursvalur, nýkominn úr ræktinni og heví hamingjusamur. Kona hans var þó víðs fjarri en nóg var af ungu kvonfangi sem góndi á hann. Ég góndi ekki heldur horfði hæfilega mikið framhjá honum til að pirra hann, tilbúin í slaginn.

Hann byrjaði að tala...og tala...og tala...lýsti kossum í rúllustigum, daðri í World Class og Indlandsferðum. Allt þetta vakti hjá mér mikinn óhug og vanlíðan og íhugaði ég nokkrum sinnum að stinga pennanum í augað á mér. Eftir að hafa talið tíu sinnum upp að hundrað, innbyrt eitt epli, hent einu epli á gólfið við hlið ruslatunnunnar, fengið illt augnaráð frá Barbí sjö sinnum og feikað tvö hóstaköst...þagnaði hann.

Og þá allt í einu, þá sá ég að þetta hatur var í raun bara öfund. Eða...ég meina elska mín á honum. Þannig að í stað þess að drekkja honum í illkvitnum spurningum, útúrsnúningum og brenna hann með augnaráðinu einu, eins og mér einni er lagið, ákvað ég að gera góðverk og gaf honum blýantinn minn. Augu okkar mættust, eins og tvö rennandi fljót sem mættust á miðri leið, og hlýtt bros hans bræddi hjarta mitt. ,,Takk" sagði djúp, munaðarfull röddin um leið og útrétt plasthöndin reyndi, án árangurs, að grípa um blýantinn. ,,Æ, en leiðinlegt Barbí, ertu ekki með neina putta!? Oooo ertu með fast bros? En leiðinlegt..."

Okei, kannski ekki alveg. En þetta var fyndið. Ekki misskilja mig Barbí- þú ert frábær, virkilega frábær, kannski bara aðeins um of. Ég höndla ekki fullkomnun. Þess vegna höndla ég ekki Barbí...

Svona hófst Valentínusardagurinn minn.

Í tilefni dagsins ákvað ég svo að splæsa á mig rómantískum kvöldverði, keypti mér skyr og appelsín og át það með krosslagðar fætur á köldu gólfi

ein

alein

og þá varð mér hugsað til þess hversu óréttlátt lífið væri

og svo, þegar ég var um það bil að sökkva í þunglyndi og ógleði vegna óhemju mikilla vangaveltna og skyráts, þá gerði ég mér grein fyrir því að áherslur mínar hingað til hafa ekki verið á ástarlífið heldur eiginlega nákvæmlega allt annað.
Eiginlega.
Maður fer alltaf útaf brautinni við og við, getum við sagt...

Og þá tók ég gleði mína á ný.
Svo áttaði ég mig á því að í raun hafði ég ekki tekið gleði mína á ný vegna þessa, heldur vegna þess að ég gat ekki beðið eftir að segja ykkur, kæru ímynduðu lesendur, frá deginum mínum.
Þegar ég fattaði það, fattaði ég um leið hversu sorleg ég er.

Og það er enn sorglegra að ég sé virkilega að segja ykkur frá þessu
Og það að enginn lesi þetta...nema ein, tvær, einmana sálir...

Og hér húki ég ein, sveitt og svöl með bumbuna út í loftið fyrir framan upplýstan tölvuskjáinn.

Þið fíli'ða...

1 ummæli:

jennzla sagði...

Ég er einmana sál sem fílaða ;o)

Þess vegna er bloggið best!