föstudagur, 22. ágúst 2008

Endir

einn lítill skreið í fangið mitt í morgun og spurði hvers vegna allir þyrftu alltaf að vera að fara. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að til þess að maður gæti byrjað á einhverju nýju yrði maður að hætta einhverju gömlu. Þá setti hann upp skeifu og sagði að honum fyndist það leiðinlegt. Síðan grét hann smá og knúsaði mig, neitaði að sleppa mér og spurði af hverju ég væri að fara að hætta. Ég sagðist vera að byrja í skólanum á mánudaginn. Hann spurði hvort ég væri að byrja í sama skóla og ein fimm ára vinkona hans. Ég sagðist vera búin með svoleiðis skóla og núna væri ég að fara í öðruvísi skóla, skóla þar sem ég myndi læra að búa til bíómyndir. Þá glaðnaði allt í einu yfir honum, augun tindruðu og hann spurði hvort ég ætlaði að búa til barnamynd, svona eins og Jack Sparrow. Ég brosti, þurrkaði tárin af andlitinu, faðmaði hann að mér og sagðist skyldi búa til fullt af barnamyndum. Þá brosti hann og kúrði sig upp að mér.

Já, það var alveg átakanlegt að hætta í vinnunni. Furðulegt hvað maður getur tengst annarra manna börnum ótrúlega mikið og fundist þau vera partur af manni sjálfum. En svona er þetta víst, maður verður að hætta einu til að geta byrjað á öðru eins og ég sagði víst sjálf...

Það var pítsupartý á meðan á handboltaleiknum stóð. Reyndar voru börnin aðeins að misskilja og héldu að þau væru að horfa á fótboltaleik með Barcelona og gerðu ekki annað en að hrópa "aukaspyrna" "áfram Ronaldo" og fleira í þeim dúr á meðan þau slöfruðu í sig pítsunum.

Hópknús, einstaklingsknús og loforð um að koma oft í heimsókn. Síðan haltraði ég út í rigninguna með kramið hjarta.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

oh, átti mörg svona augnablik á þessum sex árum sem ég vann á leikskóla. fannst alltaf jafn erfitt að kveðja krakka sem voru að hætta og segja sjálf bless til að fara í skóla.

En bílíf jú mí.... það er brjálað stuð að koma aftur í heimsókn og fá heila hersingu af hópknúsi á sig :)

Nafnlaus sagði...

haha vaaaaaaá