fimmtudagur, 27. desember 2007

oj

mig dreymdi að ég væri ólétt.
missti vatnið.
það var ógeðslegt.

miðvikudagur, 26. desember 2007

Sóley og gallarnir þrír

samanber Gullbrá og birnirnir þrír...

Sóley hét stúlka ein ljúf og góð. Hún bjó á bæ einum er kallast Siggukot í Gullbringusýslu. Sóley var jólabarn mikið, yndisleg stúlka sem ætíð var foreldrum sínum til sóma. Eftir að hafa notið aðfangadags í faðmi fjölskyldu sinnar ákvað hún að kvöldi jóladags að halda í för út í snjóinn sem umlukti bæinn. Ætlun hennar var að byggja gríðarstóran karl úr snjó, svokallaðan sjókarl. Lítið jólabarn braust fram í ungu stúlkunni og braust það svo harkalega fram í henni að það ímyndaði sér að snjógallinn, sem keyptur var á það er það var 11 vetra, myndi enn passa. Ritari barnsins minnir lesendur á það að barnið er í dag 18 vetra gamalt og eilítið öðruvísi en fyrir 7 árum síðan. Barnið hljóp á harðaspretti út í kofa einn er stóð hjá bænum, gróf upp fagurgulan galla, svokallaðan snjógalla, og stóð þar stjarft af undrun. Viðstaddir skríktu af kátínu er barnið kom aftur inn í húsið aftur með gallann í höndum sér. En þar sem barnið lætur ekki segja sér fyrir verkum þá ákvað það samt sem áður að fara í gallann. Eftir að hafa storkað öllum lögmálum og kenningum þessarar veraldar þá tókst það!Litla jólabarnið renndi stolt upp rennilásnum en í skóna komst það aldrei. Gallinn var of þröngur og lögmálið um skóna of flókið fyrir óþroskað jólabarnið. Móðir barnsins rétti fram hjálparhönd sína og dróg fram skíðabuxur og úlpu af hjálparhellunni. Litla barnið mátaði það en var heldur ósátt, þar sem hætta var á því að snjórinn kæmist inn á milli úlpu og buxna. Eftir vangaveltur og rökræður fór litla barnið úr móðurklæðunum. Í þetta skiptið leitaði það ráða hjá föður sínum, viskubrunni heimilisins, sem var fús til að lána sinn galla. Risavaxinn snjógalli frá tíma diskódansins, með mittisbelti og mislitum formum skaust út úr einni skúffunni og vafði ermum sínum um litla umkomulausa barnið. Gríðarstór gallinn huldi það frá toppi til táar og ekki var laust við að lítið bros léti sjá sig á dúðuðu andliti litla jólabarnsins þegar því var litið á stærðarmun á minnsta gallanum, mömmugallanum og svo pabbagallanum. Skemmst er að segja frá því að för litla jólabarnsins út í snjóinn gekk vonum framar og kom það inn eftir dágóða stund, með roða í kinnum og bros á vör yfir vel heppnuðum snjókarli.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Svaf til þrjú í dag.
ÞRJÚ!
Það er ekki líkt mér...raunar mjög ólíkt mér.

Ástæðan var sú að ég var alltaf að bíða eftir því að diskó-vekjaraklukkan mín myndi hringja, sem var stillt á 11, en hún hringdi aldrei. Vildi ekki missa af því að vera vakin upp með brjáluðu partýstuði á jóladag.

Hóhóhó

Gleðileg jól

ég elska ykkur öll
...já öll

laugardagur, 22. desember 2007

Skollabuxur

...eru eitthvað sem ég man ekki hvað er.

En hinsvegar eru jól ekki á morgun heldur hinn. Það er eitthvað sem maður á seint að gleyma í þessu þjóðfélagi. Jólajólajóla...rosa stuð. Ég er ekki búin að gera neitt og er stolt af því. Búin að kaupa eina jólagjöf, ekki búin að taka til, ekki búin að skreyta almennilega og látið ykkur ekki detta í hug að ég fari að baka fyrir jólin.

En ég fékk pakka í gær!! Og fékk að opna hann strax. Flottasti jólapakki í heimi. Við erum alveg að tala um bleika diskókúlu sem er vekjaraklukka...og hún blikkar og spilar eitthvað lag til að vekja mann. Vá það verður ótrúlega mikið fjör hjá mér að vakna á morgnana framvegis.

Þetta verða þá kannski þrátt fyrir allt smá diskójól með Diskó-Sól(ey) í jólakjól...

miðvikudagur, 19. desember 2007

Sönn ást

...en bara í dag.

Var í mistöð græðginnar áðan að reyna að gera jólainnkaupin. Það eina sem ég uppskar voru fullt af kertum handa sjálfri mér og kveikjari - ónýtur kveikjari. Þannig nú á ég fullt af kertum en engan kveikjara. Jei.

Regína: Anna, gefðu GS svona í jólagjöf (sýnir henni skó)
Ég: Ha? Nei oj.
Regína: Ó þú varst þarna hahaha...
Ég: Já eins gott, þeir eru ógeðslega ljótir..með hauskúpum! Ég hata hauskúpur.
Regína: Ég hélt að þú elskaðir hauskúpur
Ég: Ha, ég...af hverju!?
Regína: Bara, ég meina þú ert með á þér núna...
Ég: Ha nei! Hvar er ég með hauskúpu á mér? Regína, hvar er ég með hauskúpu!?!
Ókunnug kona fyrir aftan: Á hausnum á þér...

þriðjudagur, 18. desember 2007

Kindin Svava



Látið ekki blekkjast! Þessi hér að ofan er ekki Goggi mega úr Latabæ heldur engin önnur en kynbomban, háskólastúdínan, íþróttanördið en þó aðallega litla frænka mín Svava Lind á afmæli í dag.




...loksins orðin 18 ára...við vitum öll hvað það þýðir...

Googlaði dömunni í tilefni dagsins og fann þessar dásamlegu myndir. Klöppum fyrir því.
Og smá kveðskapur að fornum sið:

Hún á afmæli í dag frænkan mín
voðalega sæt og fín
með lítið hár en fullt af þvagi
eftir bílslys á hálsinn var settur kragi

Hún er geðveik gella og fílar alla
bæði börn og dýr, konur og kalla
Stundum stríðin en oftast góð
þykist vera rosa fróð

Svava frænka af sér rakaði allt hár
í frænkuboði varð mikið fár
teknar myndum af frænkum tveim
ég veit ei hvað orðið hefur að myndunum þeim

,,Hún er með mikið og hin ekki neitt"
þetta var ekki gaman, mér þykir það leitt...
Rosa töff að góna og glápa
inní skápa að kyssa stráka?
En það skiptir ekki máli því hún er kúl
ofurhress og aldrei fúl
gengur í stofnun H-áa og mikla
fær vöðva nördanna til að hnikla
Og nú er gleði og rosa gaman
allir að dansa og syngja saman
nema ein sem situr heima
með reikandi huga og lætur sig dreyma

Um betra líf á betri stað
hvenær, hvar, og hvað með það?
En Svava mig áfram kætir og bætir
sjáðu frænka, þeir eru ætir
Og við átum köku og drukkum kók
saklausar stúlkur fá sér aldrei smók
dönsuðu og dilluðu af gömlum sið
frænka! til hamingju með afmælið!!
vá þetta var u.þ.b. það glataðsta sem eg hef gert...en þú veist það var frá hjartanu...eða eitthvað. Allavega...til hamingju. Jei.








sunnudagur, 16. desember 2007

Til hamingju

Allir þeir sem hafa á einhvern hátt reynt að troða upp á mig jólaskapi, jólalögum, jólagleði og óskum um gleðileg jól. Ykkur hefur tekist það. Ég er búin að skreyta.

Öll mín plön um diskó-jól hjá Diskó-Sól í diskókjól hafa orðið að engu. Þeirra í stað er komin á ról Jóla-Sól í jólakjól með eyrnaskjól.

Fékk nett taugaáfall í gærkvöldi þar sem ég stóð í miðju öngþveitinu í Smáralind, innan um jólasveina, jólahúfur og jólalög...tilefni taugaáfallsins er mjög einfalt: það eru jól næstu helgi. Jább við erum að tala um það að á mánudaginn eftir viku er aðfangadagur. Og svo helgina eftir það eru áramót. Og fyrr en varir eru allir mínir kærustu búnir að flýja land og ég sit ein eftir með sárt ennið og hallærislegt jólaskraut upp um alla veggi. Já það er svo sannarlega gaman að þessu.

föstudagur, 14. desember 2007

Hann var svona hvítur eins og dós...

Af hverju ert þú alltaf að reyna að vera fínust?
Ha? Finnst þér ég alltaf vera að reyna að vera fínust?
Já.
Og finnst þér ég vera fínust?
Nei.

------------
Og áhorfendur tryllast í salnum

------------

Ég vil fá að þakka okkar dásamlega landi fyrir hið dásamlega veðurfar sem hefur einkennd suðvestur hornið síðustu daga. Það er þér að þakka, kæra Ísland, að ég svaf ekki í eina einustu klukkustund í alla nótt. Reyndar var það pínulítið Særúnu að þakka og mér...eiginlega mest okkur...að þakka já. En ég fékk klukkutíma lúr í morgunsárið og er svo búin að vera á spani í allan dag. Ekkert jafnast á við það...lalala...sólbað...eða ekki.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Ómeðvituð ást?


var að vakna upp frá svakalegum draumi...verst bara að hann skuli ekki hafa verið alvöru.

Var að skemmta á einhverri jólaskemmtun sem Baktus og á móti mér var félagi minn að leika Karíus (gaman að segja frá því að ég skrifaði fyrst Kaktus). Við vorum uppi á sviði að borða sykur og tala við krakkana og ég var að spila á fiðluna mína. Svo þegar við erum búin förum uppí hús til að skipta um föt og þegar ég er komin úr hálfum búningnum opnast dyrnar og Hugh Grant kemur inn! Ég stend þarna hálfstjörf á leggings og hálfum Baktusbúningnum og stari á hann. Hann horfir á mig og kemur svo til mín (ég stóð uppi á smá palli) og bítur laust í hnéð á mér. Ég fríka út og spyr hvort einhver sé með myndavél og þá kemur einhver pía með vídjóvél og myndar þetta allt saman. Svo hættir Hugh að bíta og við hlægjum eitthvað að þessu og spjöllum saman. Svo spyr hann mig hvort ég geti aðstoðað hann aðeins og ég jánka við því enda neitar maður Hugh Grant ekki um aðstoð sína...eða þið vitið. Svo þegar komið er að því að hjálpa honum átti ég sem sagt að rúlla honum uppá svið því hann var að fara að halda eitthvað uppistand þar sem hann átti að koma rúllandi inn. Ég hjálpa honum að komast upp stigana og rúlla honum svo inná sviðið og um leið og ég sleppi af honum takinu og sný mér í átt að útganginum á sviðinu þá breytist ég í Geir Ólafs! Og ég var þarna Geir Ólafs í svona korter á meðan ég var að klæða mig úr búningnum. Sem var frábær upplifun...
Svo þegar ég er komin úr og Hugh búinn með uppistandið stendur hann þarna álengdar og horfir á mig, ég fer öll hjá mér og geng til hans og ætla að fara að tala við hann. Fatta þá mér til mikillar skeflingar að ég gleymdi að fara í föt og stend þarna á nærbuxunum einum. Hann hlær og segist aðeins þurfa að skreppa. Á meðan klæði ég mig og hugsa upp hvernig ég eigi nú að segja öllum sem ég þekki frá þessu öllu saman. Svo þegar ég er komin í fötin fer ég að skima eftir honum en finn hann hvergi. Og þá vakna ég.

Bömmer

mánudagur, 10. desember 2007

Ælandi smástirni

Ælandi smástirni eftir Guðrúnu Sóley

Augu hennar voru svört...eins og sálin.

Eru ekki allir í stuði!?!?!
Það var allt með ráðum gert...
Ne me quitte pas...

Hann var svona eins og Guðmundur...
Halelúja!

Og þá kom rigning og Kalli litli datt

Tölum aðeins áfram um fasismann...

Hún
Látið ekki blekkjast
Bara smá

Næstum fundinn...

Einkamál
Nei ekkert vera að spila meira

Fjallganga

Símon segir...
Fólskuleg árás á gervihnattaöld

Diskó-Sóley
Já svona hundrað og sjötíu

Mér þykir það leitt...
Hún hevur nakad týdningarmikið at sigja
Fíllinn hann faðir minn

Ég held ég sé hætt
Hlauptu Jónas

helvítis Barcelona
Esta en Barcelona
Skósólasósa
Dvergurinn Bergur

Nenni ekki að syngja...úps ég meina syrgja
Þolir þú meiri sorg?
Óljúfa líf

Ég vild'ég væri...
Mona Lisa

Hugleiðsla
Bökurnarpappír? Bökunarpartý?
Gefstu upp?

Kjöt
Artí

Brauð
dauði

Kleinur
Bara fyrir Báru

Mr. Bojangles
Dugnaður

Og nú byrja ég aftur

Fráhvarfseinkennin...
Heim úr dalnum

Gríma er stór og loðin
Gleði gleði...

De er rode de er hvide
Það er gaman...

Yo


-----------------

kemur út á bók fyrir jól
og ef þið hafið ekki fattað það þá er ljóðið samið úr færsluheitunum á þessari mögnuðu síðu, í réttri röð.

Sumum er það bara meðfætt að yrkja...

Augu hennar voru svört...eins og sálin

sálin sem hún þráði
en fékk aldrei

sunnudagur, 9. desember 2007

Eru ekki allir í stuði!?!?!




Mér gekk vel í frönsku.


Mér gekk ótrúúúlega vel í listasögu.


Mér hefur aldrei gengið jafn vel í lokaprófi eins og í félagsfræðinni.


Og nú er bara saga eftir.


Bara saga?


Nei...það er ekkert bara. Var að uppgötva það mér til mikillar skelfingar að ég keypti víst aldrei bókina. Þannig ég er bókarlaus. Og brókarlaus...eða svona næstum.


Og svo voru tónleikar á laugardag. Sem gengu mjög vel. Jei.





Þó hef ég lært sitthvað síðustu daga.



  • Okkar ástkæra Dorrit á ekki heima í Indlandi og því er það henni ekki eðlislægt að borða hrísgrjón í morgunmat.

  • Litli-Dvergur er ekki gáfuleg ofurhetja þegar vatnið er of heitt

  • Börn geta verið mjög mjög mjööög orkurík og sooooooga alla orku frá manni á mjög skömmum tíma.

  • Þau þroskast og stækka mjög fljótt. Of fljótt.

  • Stundum verður maður bara að kunna jólalögin, hvort sem manni líkar betur eða verr

  • Svefn er nauðsynlegur, þó svo að maður hafi ekki tíma

  • Viltu athygli? Fáðu þér marblett


oooog húllerassihía húllerassihí gúgú gúgú húllerassihía hú











þriðjudagur, 4. desember 2007

Það var allt með ráðum gert..

...að byrja að læra mjög mjög seint í gærkvöldi.

Í dag er ég hinsvegar búin að vera nokkuð dugleg. Tókst að lesa mig og glósa í gegnum 1000 powerpoint glærur sem tók alltof alltof langan tíma...en það gekk.

Hinsvegar er ég ekki búin að læra neitt undir frönsku sem ég er víst að fara í í fyrramálið. Búin að sannfæra sjálfan mig um það að í stað lærdóms sé betra að hlusta nógu oft á Ne me quitte pas, La mer og Edith Piaf. Svo er ég búin að vera mjög frönsk í hugsun og mjög petit í öllum hreyfingum. Vona að það skili mér góðu gengi í prófinu á morgun.

Nýtt æði hefur heltekið mig, vaknaði í morgun með stórkostlega löngun í að fara að æfa samkvæmisdans. Cha-cha-cha, Tangó og hvað þetta heitir nú allt saman. Sé það samt alveg fyrir mér, öll ástföngnu pörin dansandi að gefa hvort öðru undir fótinn á meðan ég, gellan sem mætti án félaga, dansa við kennarann sem er sjötug kona með úrelta hárgreiðslu. Þannig að...

dadararaddadaaaa

Ég auglýsi hér með eftir ungum herramanni sem er til í að dansa, og ekki væri nú verra ef hann kynni eitthvað smá fyrir sér í þeim efnum. Sjálf var ég nú á dansnámskeiði þegar ég var fimm ára...


Elle: Jean...Ne me quitte pas, je t'aime!
Il: Je dois aller mon amoureux...
Elle: Je mourrai si vous allez
Il: Alors vous devez mourir, je suis désolé
Elle: Non! Non...ne me quitte pas!

Il part...


Hún: Jean...Ekki fara frá mér, ég elska þig!
Hann: Ég verð að fara mín heittelskaða...
Hún: Ég dey ef þú ferð
Hann: Þá verðurðu að deyja, mér þykir það leitt
Hún: NEI! Nei...ekki yfirgefa mig!

Hann fer...





mánudagur, 3. desember 2007

Ne me quitte pas...

Svolítið skondið að ég hafi komist í gegnum þessa önn án þess að kaupa eina einustu skólabók. Það hefur falið í sér gríðarlegan sparnað og ánægju meðal fátæku námskvinnunnar. Tvö próf ekki á morgun heldur hinn og enn er ég ekki byrjuð að læra.

Gefur kannski til kynna áhuga minn á skólanum...

En núna er ég búin að ákveða hvað ég ætla að gera (örugglega í hundraðasta skipti...). Tók góðan tíma í það að skoða skóla úti í heimi í gær og er búin að prenta út fjöldann allan af umsóknum (eða reyndar enga, fattaði nefnilega að ég á ekki prentara...en þetta hljómar rosa vel; prenta út fjöldann allan af umsóknum, svo ég leyfi því að standa) og orðin mega spennt.

Ætli ég byrji ekki í skólanum á næstu önn og sjái svo bara til hvað gerist...

Annars væri nú alveg ágætt og vel viðunandi ef einhver myndi sjá sóma sinn í því að rita nafn sitt hér að neðan og tilkynna um komu sína á þetta annars líka ágæta vefsvæði...

sunnudagur, 2. desember 2007

Hann var svona eins og Guðmundur...

Barn í Blómaval: Hæ..ert þú Rut?
Grýla í Blómaval: Nei ég er ekki Rut. Ég er Grýla.

Hey já hæ þú vó gaman að sjá þig hey gleðileg jól! Fólk er alltof alltof ALLTOF hresst og jólalegt þessa dagana. Fór á laugarveginn í gær og hvert sem ég leit var fólk að knúsa og kjassa vini og vandamenn og óska þeim gleðilegra jóla. HA? Bíddu...var ekki 1. desember?
Ég ætla að taka uppá því að óska fólki til hamingju með afmælið mánuði áður en það á afmæli.

Í fyrradag voru allir ,,næstum í jólastuði" og hafa lýst því yfir síðan í júlí.

Bylgjan, næstum í jólaskapi!

En svo í gær BÚMMM jólasprengjan sprakk yfir bæinn og umkomulausir þorpsbúarnir gerðu heiðarlega tilraun til þess að flýja. Því miður voru öll gistihúsin full og því þurftu þau að flýja í fjósið...en þar lenti sprengjan einmitt.

Bylgjan með þér í jólastuði! Hóhóhó og gleðileg jól!

Nei..ég er ekki í jólastuði og ég hef engan áhuga á því að hlusta á jólalög í 24 daga til að koma mér í ,,jólagírinn". Móðir mín kom til mín í gær, með bros á vör og hendur fyrir aftan bak. ,,Hvað?" spurði ég í sakleysi mínu enda ekki vön að sjá móður mína með hendur fyrir aftan bak. ,,Ég keypti handa þér jóladagatal!" sagði hún sigrihrósandi og rétti fram Tanna og Túpu jóladagatal. Vá! Frábært! Æðislegt! Hóhóhó og gleðileg jól!


Ég ætla ekki að setja upp jólaseríu og ég ætla ekki að setja upp jólatré. Ég er á móti jólatrjám. Hundruðir trjáa eru myrt í desember svo að sæta litla fólkið geti skoppað í kringum það í viku og brennt það svo eða hent því út á götu. Mmm finnurðu jólailminn af jólatrénu elsku litla jólabarn, sagði jólasveinninn og kveikti í jólalega jólatrénu.

Í stað þess ætla ég að hafa diskóþema í minni íbúð yfir jólin. Allir elska diskó, meira að segja strumparnir, og við því er ekkert hægt að segja. Diskókúlan verður hengd fyrir ofan loðið dansgólfið þar sem sveittar diskódívur og diskódúddar munu hrissta stuttbuxnabossana og þeysast um á skræpóttum hjólaskautum.

Þannig að þið jólafólk getið tekið ykkar jólaseríur, jólatré, jólalög, jólakökur og jólajólajól með ykkur og sleppt því að troða því framan í mig. En hinsvegar er í góðu lagi að skilja jólahjólið eftir, það gætir reynst okkur diskófriskó fólkinu vel á komandi diskóhátíð.

Takk fyrir mig og gleðileg jól.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Halelúja!

Ég held, vona og þrái að núna sé ég að brenna stuttmyndina mína á disk. Veit ekki alveg hvað tölvan er að "processing" núna eins og hún orða það en ef ég er einstaklega heppin þá er hún að gera rétt.

Var að taka það saman hvað það tók marga tíma að gera þessa 12 mínútna löngu stuttmynd. Við erum að tala um það að ég fékk hugmyndina að því að gera þetta þarsíðustu helgi og því afskaplega lítill tími og nánast enginn peningur. En svona er þetta...fékk fólk til að leika og þó svo að ég hafi skrópað í fullt af tímum sökum svefnleysis, orðið fárveik og fengið nokkur taugaáföll þá var þetta svo sannarlega þess virði. Það tók s.s. um 30 klukkustundir að taka myndina upp (innifalið í því eru ferðir á milli tökustaða, undirbúningur fyrir tökur og grín og glens inn á milli) og síðan tók eftirvinnslan, sem ég sá einfarið um, aðrar 30 klukkustundir. Við erum að tala um 60 klukkustunda vinnu fyrir 12 mínútna mynd!!! Sjitt...ef ég hefði vitað þetta í upphafi hefði ég kannski hugsað mig tvisvar um, svona með tilliti til þess að prófin eru að skella á, æfingabúðir síðustu helgi, tvær vinnur og skóli sem þarf að sinna.

En þetta var stuð og þó svo að ég sé ótrúlega heilalaus og vart talandi núna þegar klukkan er að ganga þrjú um nótt, búin að vera að taka upp og klippa og vesenast síðan tvö í dag. Og það var eins í gær...vesen frá tvö til tvö. Dásamlegt.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Og þá kom rigning og Kalli litli datt...

Byrjuð að klippa stuttmyndina mína

þetta gengur...þetta gengur...
rómantískt?

föstudagur, 23. nóvember 2007

Tölum aðeins áfram um fasismann...

...eða sleppum því bara og leyfðu okkur að hlaupa frjáls um heima og geima!


Ég er að gefast upp á skólanum. Skólaleiðinn hefur herjað á mig að nýju og ég er ráðalaus.

Var búin að ákveða að taka mér pásu á næstu önn og gera eitthvað skemmtilegt við líf mitt, svo hætti ég við það og ætlaði að drífa mig að klára skólann...og nú er ég ráðalaus.


Ég hugsa meira með vinstra heilahvelinu en því hægra. Komst að þessu í gær eftir langar umræður um heilahvel og heilavirkni við móður mína. Þeir sem hugsa meira með hægra heilahvelinu eru mjög góðir í allir rökhugsun, góðir í öllu því sem leiðir að einni lausn, eins og t.d. stærðfræði. Þeir sem hugsa með vinstra heilahvelinu eiga erfiðara með rökhugsun og eru þar af leiðandi lélegri í stærðfræði, hugsa meira út fyrir rammann, eru listrænni og meira skapandi og eiga það til að gera hluti sem þeir sem hugsa meira með hægra heilahvelinu myndu ekki láta sér detta í hug.


Fórnarlamb dagsins er Guðrún Sóley. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það stærðfræði. Ég skil ekki stærðfræði og hún ekki mig. Okkar leiðir munu aldrei, og þá segi ég aldrei, liggja saman. Ég hugsa ekki mjög rökrétt og á t.d. afskaplega erfitt með að meðtaka þau skilaboð frá föður mínum (hægra heilahvel ríkjandi) að bíllinn minn muni bræða úr sér einn daginn þar sem u.þ.b. fimm göt eru á púströrinu, hljóðkúturinn (sem datt undan fyrir tæpum tveimur mánuðum) er enn í skottinu, tímareimin að renna sitt skeið og rafgeymirinn ónýtur. Móðir mín hinsvegar (vinstra heilahvel) segir að ég eigi að ráða þessu, ef ég vilji taka strætó það sem eftir er þá sé það mín ákvörðun. Ég (vinstra heilahvel) tel að með góðum hugsunum, straumum, ást og umhyggju getum við, ég og bíllinn, sigrast á vandanum án allra viðgerða og peningaplotts frá fátækum námsmanni og listaspíru. Það hefur virkað hingað til þrátt fyrir að hann hafi tekið sér frí víðsvegar um bæinn á ólíklegustu augnablikum, sem hefur uppskorið einskæra kátínu hjá föður (hægra heilahvel) og móður (vinstra heilahvel) fórnarlambsins (vinstra heilahvel).

Allur minn tími fer í að skapa og þannig hefur það alltaf verið. Sköpun ofan í sköpun og brátt mun hún leiða eitthvað stórkostlegt af sér, sem hún hefur reyndar fyrir löngu gert. En svona er þetta...rökhugsunin ekki að gera sig hjá mér en það er allt í lagi, ég þarf ekkert á henni að halda og ef ég þyrfti einhverntíma lífsnauðsynlega á henni að halda þá getur faðir minn séð um hana fyrir mig.



þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Hún

Ó hve allt er dásamlegt allt í einu.
Tökurnar á stuttmyndinni minni, Hún, hafa gengið ótrúlega vel. Var að taka upp í allan dag, fyrst úti á Keili og í Keflavík og svo hérna í bænum. Komst að því að síróp og tveir staukar af matarlit er ekkert sérstaklega góð hugmynd þegar nýir bílar eru annars vegar. En hinsvegar er tómatsósa, tómatpúrra, neskaffi og akrýlmálning hið besta mál. Svakalegur kuldi, kvef, Keflvíkingar, peningaleysi, rifin föt, subb og gerviblóð úti um allt hafa einkennt tökur dagsins.
Býst við því að klára tökur á morgun eða hinn, sem er dásamlegt.

mánudagur, 19. nóvember 2007

Látið ekki blekkjast

...þið munið glata vinum ykkar.

Pictionary hefur skelfileg áhrif á fólk.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Bara smá

Ég elska þig þrátt fyrir veikleika þína
- takk

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Næstum fundinn...

Eftir gríðarlega gagnasöfnun hef ég fundið eina mynd af ástmanni mínum á leikskólanum. Að vísu er hann falinn á bak við mig, enda var ég ávallt sú sem var fremst á öllum myndum.

Harðstjórinn með síða hárið...

Um leið og ég finn skanna einhversstaðar þá mun ég setja upp aðra auglýsingu, og nú með mynd.

Og svona til að leiðrétta allan misskilning sem átti sér stað með óð minn til hans hér að neðan, þá er þetta allt saman satt. Ég er bara svo ótrúlega góð í að ríma enda hef ég tíma til að híma og tala í síma og þarf því við ekkert að glíma. Vá töff.

En að öðru...

Brátt mun ég bresta út í dans og söng á götum bæjarins með lúðrasveit og gógódansara mér við hlið. Fólk mun bresta út í söng og dans hvar sem ég lít og allir verða ótrúlega samtaka og flottir. Atriðið mun svo enda á því að mér verður fleygt upp í loftið af seiðandi salsadönsurum sem grípa mig svo aftur nokkrum andartökum, yfirliðum og "óguðminngóður" síðar og mun ég falla ljúft í faðm þeirra...í spígati. Já, kæru landsmenn, brátt mun draumur okkar allra rætast.

Ég var alveg að missa mig úr hamingju áðan þegar ég sá hversu teygjanleg ég er orðin...allt þar til ég sá þetta myndband á youtube og áttað mig á því að fimleikaþrælar heimsins myndu hlægja að mér.

En bráðum koma blessuð jólin og spígatið með. Ef einhver ykkar ætlar að gerast svo góður að gefa mér jólagjöf þá langar mig mest í lítinn fimleikaþræl sem getur tyllt sér á bakið á mér, slitið á mér allar festingar og liðbönd og komið mér í spígat bara bing bara búmm!

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Einkamál

Ég auglýsi hér með eftir ungum pilt
sem á leikskóla mínum ég undi.
Við vorum pínulítil og rosa stillt
og kynntumst að ég held í sundi

Hvað hann heitir, enginn veit
en samband okkar varði þó lengi.
Svo ósköp rjóð og undirleit
dáðist ég að þessum unga drengi.

Ég allt það gerði, er bað hann um
og hann hvað sem er fyrir mig
ég mætti í skólann á sundbolnum
og fyrir mig hann pissaði á sig

Ó hið ljúfa líf sem við lifðum þá
á sitthvorri deild á sama kjarna
við kysstumst bless í gegnum gluggaskjá
og farið er ennþá þarna

Svo hvar er hann, sá ungi sveinn
sem á Fögrubrekku dvaldi
ertu kannski ekki einn
skilnaður á undanhaldi?

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Nei ekkert vera að spila meira...

sögðu börnin á leikskólanum þegar kynnti fyrir þeim fiðluna mína í tónlistartíma í dag. Dásamlegt hvað þau eru hreinskilin.

Ég var að gera mér grein fyrir því í dag að ég hef lifað í blekkingu síðustu vikur. Ég hélt að ég þráði ekkert meira en að komast í splitt. Var búin að þróa með mér hinar ýmsustu leiðir til að teygja mig og toga en komst að því í leikfimi í dag að líf mitt hingað til hefur verið ein stór blekking. Ég hef alla tíð talið mér trú um það að splitt væri það þegar maður teygir lappirnar út til hliðanna en snýr beint fram, og að spígat væri það þegar maður teygði lappirnar fram og aftur og snéri að annarri löppinni. Fórnaralamb blekkingarinnar er nú upplýst og nú veit ég að ég hafði rangt fyrir mér. Splitt er fram og aftur og spígat sundur. Djöfullinn sjálfur.

En sem sagt...mig langar að komast í spígat.

Plötuútgáfan hefur frestast alltof lengi. Við erum að tala um þrjá mánuði. Þrír kvalarfullir mánuðir sem hafa haft í för með sér óendanlega röð aðdáenda, æpandi smábörn, óþolinmóða táninga og skelkuð gamalmenni. Ryk fallið á hljóðfærasafnið, upptökugræjurnar orðnar gamaldags og tíu litlir negrastrákar orðnir sjö.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Fjallganga...

Hverjum datt í hug að segja að það væri ekkert mál að ganga á Helgarfell!?!


Ég lagði af stað í gærdag, grunlaus um hvað biði mín, hauslaus og hlægileg á litla ruminum mínum að fjallinu. Byrjaði ekki betur en svo að ég týndist í Heiðmörk. Þegar við komum loks að fjalllinu kom í ljós að þar er líka á, og 28 km gönguleið AÐ FJALLINU.


Óguðminngóður og við sem héldum að þetta tæki innan við hálftíma...

Rigning og rok og allt í volæði, Diljá á strigaskóm en áin krafðist vaðs og meira vesens. Göngugarpar með allar nýjustu græjurnar hópuðust í bíla sína, nú komnir niður af fjallinu. Klukkan var að ganga fimm og farið að myrkva. Við snerumst í hringi á bílastæðinu og smelltum nokkrum myndum af herlegheitunum þar sem ætlunin með fjallgöngunni var ekki skemmtun, heldur uppbætur fyrir alltof mikið skróp í skólaleikfimi.


Þegar ég kom heim, blaut og hrakin eftir heljarinnar fjallgöngu, hlógu foreldrar mínir að mér. Hvernig heldurðu að ÞÚ getir gengið á Helgarfell SVONA??Já..það var rétt...ég var á hettupeysu og leggings í fáránlega stórum gönguskóm. Það tekur allan daginn að ganga á fjallið, svona 5 tíma, hvað varstu að spá!?!


Ég veit ekki hvað ég var að spá. En ég er komin heim. Og á lífi. Það er gott.


föstudagur, 9. nóvember 2007

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Fólskuleg árás á gervihnattaöld


Þetta byrjaði allt sem lélegt túristagrín

Stingandi augnarráð hans fékk saklausa túristann til að hlægja

En þegar hlátrasköllin ómuðu um stræti Barcelona hófst Eddie athlögu


Og framdi verknaðinn....fólk æpti yfir sig, börnin grétu og gamlingjar féllu í yfirlið
Hann hafði gert það...honum hafði tekist það...hann...klippti á henni hárið

mánudagur, 5. nóvember 2007

Diskó-Sóley

Mig langar svo að komast í splitt! Ég er búin að teygja mig og toga, láta setjast á bakið á mér og ögra þyngdaraflinu en ekkert gengur. Vinstri fóturinn stendur sig mun verr. Hann þvertekur fyrir það að aðstoða mig við þessa nýju áráttu mína.

Ef það er einhver að leita að nýrri Sollu stirðu, eða kannski Sóley stirðu þá er ég til. Er alveg til í að bera bleika hárkollu og dáðst að skoppandi Scheving. Eins var ég að muna eftir barnabók og barnamynd sem voru í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil. Lata stelpan hét þetta og fjallaði um lata stelpu sem nennti ekki að taka til heima hjá sér og þrífa sig. Húsgögnin hennar og allt dótið gáfust upp á henni og gengu út. Undir þessu öllu saman dundi tregablandin klassísk tónlist sem minnti mig alltaf á ballett. Þegar ég lít í kringum mig þá get ég ekki annað en samsvarað mig henni. Að vísu á ég engan kúst sem lifnar við og gengur út og efast um að sængin mín komist út um svefnherbergisdyrnar fyrir drasli.

En ég á diskókúlu. Splunkunýja diskókúlu með mótor sem ég keypti í hinni margumtöluðu Toys 'R' Us. Guð minn góður ef það er ekki mesta vitleysa í heimi þá veit ég ekki hvað. Hef aldrei upplifað annað eins. Við vorum án gríns í 40 mínútur að komast að versluninni! Að maður skuli láta hafa sig í þetta...og fyrir nákvæmlega ekki neitt. Pínumeira dót, það er allt og sumt. Meira ruglið.

Það eina sem mig vantar núna er handlanginn herramaður til að setja hana upp, ekki skemmdi fyrir ef hann væri dansandi diskósjarmör með afró. Og ef hann gæti sest á bakið á mér og þrýst mér niður í splitt. Vá, en rómantískt!

Var þess heiðurs aðnjótandi að vera fyrsta utanaðkomandi pössunarpía Jóels Mána (sem varð einmitt eins árs síðastliðinn miðvikudag). Fékk fullt af barnamauki í hárið, kinnakrem á varirnar og eitt gott atsjú fyrir svefninn. Dásamlegt að eiga við góð börn, jafn dásamlegt og það er ömurlegt að eiga við erfið börn.

föstudagur, 2. nóvember 2007

Já svona hundrað og sjötíu

1: Viltu hjálpa mér? sagði hún og klóraði sér í rassinum

2: Nei ég er upptekin, sagði hún og hljóp á vegg

1: Allt í lagi þá, sagði hún og blikkaði hana

2: Já..., sagði hún og blikkaði hana


ég elska leikhússport


fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Mér þykir það leitt...

Ég þoli ekki þegar fólk ...

Mér þykir það leitt en þú varst því miður ekki valin
Mér þykir það leitt en þú stóðst því miður ekki settar kröfur
Mér þykir það leitt en við eigum þetta ekki til í þinni stærð
Mér þykir það leitt en ég finn ekki það sem þú leitar að
Mér þykir það leitt en þetta bara var að klárast

YKKUR ÞYKIR ÞAÐ EKKERT LEITT! Ykkur er alveg nákvæmlega sama og þessi gamli frasi sem virðist vera gjörsamlega óstöðvandi er bara einhver undankomuleið.

isspiss ég er hætt að hlusta á þetta rugl í ykkur og næst þegar einhver segir að honum þyki það leitt þá ætla ég að taka hann/hana afsíðis og halda smá einræðu yfir honum/henni.

og nú get ég glaðst því í dag á ég pening!!!! Vúhúúú

sunnudagur, 28. október 2007

Hún hevur nakað týdnigarmikið at siga.

Vaknaði eldhress í bítið, grunlaus um hvað biði mín. Ískaldar stofuflísarnar tóku á móti mér og frystu á mér iljarnar. Tannkremið búið. Klósettpappírinn búinn. Öll fyrifram ákveðin plön um losun og hreinlæti duttu upp fyrir vegna þessa. Klæddi mig og hélt af stað út í óvissuna. Bíllinn minn var gaddfreðinn og það tók mig svona korter að brjóta mér leið inn í hann. Við tók rúðusköfun með flotta ÓB kubbnum mínum sem einhver var svo góður að gefa mér þar vegna rúðusköfuleysis míns. Hann virkar nákvæmlega ekki neitt, gæti eins skafið með rúgbrauði. Keyrði af stað og vonaðist til að öll börn og gamalmenni í hverfinu væru enn sofandi eða að minnsta kosti afskaplega langt frá götunum. Eftir nokkrar ómægad uppgötvanir um svakalega hálku og rennirí þá komst ég loks að tónlistarskólanum. Um leið og ég hafði drepið á bílnum hringdi síminn. Tilkynning um það að fleiri bílar væru gaddfreðnir og að æfingunni yrði frestað um hálftíma. Ég hélt fúl heim á leið. Þegar þangað var komið fékk ég annað símtal. Æfingin sem átti að vera núna eftir korter verður alls ekki. Jei.

Ég er sem sagt búin að vera vakandi síðan klukkan hálf níu til einskis. Að vísu hef ég afrekað alveg stórkostlega hluti í þessum grindargaddi úti við en sú tilhugsun kætir mig voðalega lítið núna.

Komst að því í gær þegar ég ætlaði að kaupa mér kók að ég á nákvæmlega 25 krónur. 25 krónur til að lifa af fram á hvað, miðvikudag? Og ekki má gleyma því að það er ekki til neitt kók, enginn klósettpappír, ekkert tannkrem og bensínið af afar skornum skammti.
Ég verð víst bara að flytja til fjalla og læra að lifa á fjallagrösum og stunda andlega íhugun til að koma í veg fyrir að ég tapi vitinu innan um kjánalegar kindur og kýr.
Í stað þess að væla í foreldrum mínum og vinum um lán á pening þar til um mánaðarmótin hef ég ákveð að gefa skít í þetta. Ég dey ekkert þó ég tannbursti mig heima hjá mömmu og pabba, geri þarfir mínar annars staðar en heima hjá mér og drekki frítt vatn í stað kóks í þrjá daga. Iss piss ég get það alveg.

Las þessa klausu einhversstaðar: Ef þú átt mat í ísskápnum, föt í skápunum, þak yfir höfuðið og stað til að sofa á - þá ert þú ríkari en 75% af heiminum.

Sko! Ég er rík! Að vísu á ég engan mat í ísskápnum fyrir utan ársgamlan smurost og loðinn appelsínudjús en það er allt í lagi. Ég ét þá bara það sem úti frýs- sko frostið er meira að segja jákvætt! Á að vísu engin föt í skápunum heldur- þau eru á víð og dreif um allt svefnherbergið. En þak hef ég og mátulega stórt rúm, föt á gólfunum og fullt af frosti til að borða. Namm namm namm hvernig ætli jólin verði?

föstudagur, 26. október 2007

Fíllinn hann faðir minn.

Ég kýs að taka þessu ofurlitla nei-i sem hvatningu um áframhaldandi skrif. ,,NEI EKKI HÆTTA!"

Tatararadadaaa ég hef nú lokið við skrif á félagsfræðiritgerðinni sem hefur verið að plaga mig síðustu vikur. Loksins er ég frjáls undan viðjum þessara skrifa og þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu þar til á mánudag. Fyrsta helgin mín í langan tíma sem ég þarf ekki að vorkenna sjálfri mér yfir einhverskonar skrifum.

Mig dreymdi alveg stórmerkilegan draum í nótt. Hákarlar í garðinum mínum og spjall við fíl sem tilkynnti mér það eftir dálitlar rökræður að fílar væru ekkert hættuleg dýr. Hann reif upp spýtu í pallinum mínum og afhenti mér alla eyrnalokkana sem ég hef verið að týna upp á síðkastið (á núna bara einn úr hverju setti). Fíllinn var í fötum og mér leið eins og hann væri faðir minn. Svo var eitthvað svakalegt mál með alla þessa hákarla í sjónum sem var staðsettur í garðinum.

Og svo vaknaði ég einhverntíma þarna í miðju ævintýrinu til þess að halda áfram með skrif mín um heimilisofbeldi.

Ætla að fara og leita mér að sokkabuxum því ég finn enga samstæða sokka.
Túrílú

og já Bára...ég samhryggist þér innilega með sambandsslitin. Getur þó tilkynnt sænsku píunni að örvænta ekki því á næstu önn er ég að fara í ....daddararaddadaaa SÆNSKU!!! Mitt fyrsta verk sem sænskumælandi pía verður að yrkja til hennar. Það er svo gott að vera svona alþjóðlegur, finnst þér ekki!?

miðvikudagur, 24. október 2007

Ég held að ég sé hætt

er þó ekki alveg viss...gaman að þessu svosem en þó heldur tilgangslaust babl um ekkert sem skiptir máli.

nema þið viljið koma einhverju á framfæri?

eða kannski stiðja við bakið á mér svona til tilbreytingar...

föstudagur, 19. október 2007

Hlauptu Jónas

,,En hvernig var annars ferðin, fyrir utan þetta með veskið?"

Hmm...,,þetta með veskið" setti auðvitað mjög mikinn svip á ferðina alla og ég er enn taugahrúga eftir þetta allt saman. Og líka eftir það þegar ég missti af öllum krökkunum og kennurunum í metrokerfinu í Barceolona og stóð ein eftir. Það hefði ekki verið svo skelfilegt nema hvað að ég var ekki með síma, vissi engin símanúmer, hafði ekki hugmynd um hvað lestin héti sem þau tóku eða hvert við værum að fara, vissi ekki hvað hostelið sem við gistum á héti og hafði ekki græna glóru um hvar í andskotanum ég væri stödd.

Hvar get ég nálgast kúrs í ratvísi?

En annars var ferðin frábær. Sól allan tímann og einn daginn fór hitinn upp í 33 gráður! Flatmagaði á einhverju torgi hálfnakin og velti mér uppúr dúfukúk á meðan glottandi Kínverjar smelltu af myndum. Verslaði frá mér það litla vit sem eftir var og fyrir alla peningana sem eftir voru, borðaði góðan mat, fór á karaókíbar þar sem Las chicas d'Islandes voru uppgötvaðar og hófu feril sinn á upplýstu sviði innan um eintóma spanjóla. Var sveitt og þreytt og svaf afskaplega lítið. Fór á brjálaðan neðanjarðar salsaklúbb, tjúttaði tryllt og síðan var mér hent út fyrir að taka vídjómyndir. Komst að því að eftir 17 klukkutíma ferðalag á áfangastað verða fætur manns óvenju þrútnir og bólgnir en þó ekki jafn þrútnir og eftir að hafa verið á fullu í heilan sólarhring eins og raunin varð á mánudag. Vaknaði 6 á spænskum tíma og pakkaði og gerði mig til fyrir flugið og lentum svo í endalausum vandræðum á leið út á völl. Flug til Köben og heilum degi eitt þar í innkaup, át og leit að mér...sem týndist einnig þar. Hmm... Svo var haldið aftur út á flugvöll ( og ekki má gleyma endalausum lestar- og leigubílaferðum og mun meira labbi) og þaðan var haldið til Íslands með tilheyrandi töfum vegna of mikils handfarangurs farþega ( skrifast einfarið á mig sem mætti með alltof stóra flugfreyjutösku, risastóra handtösku og aðra tösku stærri en risavöxnu flugfreyjutöskuna, allt saman í handfarangri og komst upp með það með því að þykjast vera Dani). Þar fór ég úr skónum og lét ferskt flugvélaloftið leika um sveittar tærnar. Þegar vélin var svo lent hérna heima eftir sólarhrings vöku og ferðalög gat ég ekki smellt aftur skónum...fætur mínir líktust uppblásnum blöðrum. Jammí.

Skelli inn myndum um leið og ég hef tíma og þol í það.

miðvikudagur, 17. október 2007

helvítis barcelona

Komin heim frá barcelona
hitti þar bæði hórur og róna
lenti í afar kröppum dansi
sem endaði alls ekki með glansi

Ég týndist ein á lestarstöð
með ónýta tösku og ekki glöð
vissi ei neitt og ekki með síma
tapaði bæði viti og tíma

Ég veit ei hvernig né hvenær það skeði
en fyrir það líf mitt hefði ég sett að veði
ég rænd var að kvöldi fyrsta dags
um 40.000 krónur og pepsi max!

Þetta er ekkert grín og ég hef grátið mikið
þessir óprúttnu menn höfðu mig svikið
Mig langaði ekki að vera þar lengur
en svona víst bara gerist og gengur

Og ég hringdi í mömmu og mamma í mig
um helvítis borgina töluðum við
ég vældi svo mikið og róaðist ei
fyrr en heim á Ísland var komið sussumsvei

sunnudagur, 14. október 2007

Esta en Barcelona

okei

og i gaer atti eg versta dag lifs mins...

komum i gaer...

tokst ad rusta ferdatoskunni minni eftir 14 klst ferdalag

missti af lest thar sem allir krakkarnir og kennararnir voru i og eg var ekki med sima, peninga eda neitt og vissi ekkert hvar eg var ne hvert thau hefdu farid

med undraverdum haetti nadi eg ad bjarga mer og rett nadi naestu lest

og svo var eg raend

40.ooo kronur takk fyrir!!!!!!allur helvitis peningurinn minn

eg er fifl

taugaafall og andlegri heilsu minni hrakadi storkostlega vid thetta

grenjadi i svona 4 tima

en i dag var sol...og 30 stiga hiti..og mamma og pabbi logdu inna mig pening og hughreystu mig

og vid fundum H&M

og karoki

og nu er eg semi hamingjusom


en aldrei aldrei aldrei fara til barcelona

...an grins

miðvikudagur, 10. október 2007

Skósólasósa

Skór
skósóli
skósólasósa
skósólasósan mín.

Óró
Óróli
Órólasósa
Órólasósan mín

Kór
kóróli
kórólasósa
kórólasósan mín.

Dr. Jól
Drjólóli= drjóli
drjólasósa
drjólasósan mín

mánudagur, 8. október 2007

Dvergurinn Bergur

Ég er búin að vera veik í næstum því þrjár vikur núna. Virðist alltaf vera að jafna mig en vakna svo næsta morgun í miklu ólagi og get voðalega lítið gert annað en að smæla framan í heiminn og mæta í skóla, vinnu og þess háttar. Hnéð mitt er líka búið að vera með einhver leiðindi í næstum tvær vikur núna og ég er um það bil að gefast upp á því. Þrátt fyrir að veikindin og hnéð hafi haft töluverð áhrif á gang mála síðustu vikur þá hefur ekkert komið mér í jafn mikið ójafnvægi og helvítis klukkurnar sem elta mig hvert sem ég fer. Málið er það að í hvert einasta skipti, og þá meina ég í hvert einasta, þegar ég hef óvart rekið augun í klukkuna, þegar ég svara í símann, skipti um útvarpsrás, kveiki á bakarofninum, þá er klukkan 11:11, 20:20, 09:09, 15:15. Ég held í alvöru talað að ég sé að verða geðveik.

Síðan síðast hefur margt á daga mína drifið. Mjög margt meira að segja. Mér tókst að taka til í íbúðinni minni - og drasla hana út aftur. Reyndar var ég mjög ómeðvituð um það þannig það telst kannski ekki með. Einnig tókst mér að taka til í bílnum mínum og hreinsa til í aftursætunum svo ég gæti tekið fleiri farþega en einn. Núna efast ég hinsvegar um að nokkur einasti maður komist inn í bílinn minn fyrir utan bílstjórann sem þarf oftar en ekki að skutla sér ofan í hyldýpið og ryðja sér leið í átt að stýrinu. Fékk gefinst passa á RIFF og fór á tvær myndir. Import Export sem var vægast sagt gífurlega löng og leiðinleg. Þegar ég gekk út af henni, eftir tveggja tíma kvöl, pínu og dott sátu örfáar hræður eftir með skelfingarsvip í salnum sem í byrjun myndarinnar var fullur. Ég fór líka á mynd sem ég man ekki hvað heitir sem fjallar um þrjá menn sem festast inni í bíl. Hmm...hún var allt í lagi en mér tókst samt að sofna nokkrum sinnum og vera dónaleg við útlending. OG NÚNA ER HELVÍTIS KLUKKAN 08.08

guðminngóður ég fæ brátt taugaáfall

Ég fór líka á Masterclass námskeið hjá Gilles Apap og tónleika í gær. Það var alveg hreint magnað sérstaklega í ljósi þess að á föstudaginn var ég í fiðlutíma að skoða myndband af gæjanum á youtube og svo mæti ég í tónlistarskólann á laugardeginum og þá situr hann þar úti á miðju gólfi. Náði smá tali við kauða og spileríi sem var mjög skemmtilegt. En já...

Á föstudaginn er ég svo á leiðinni til Barcelona, þrátt fyrir að enginn hafi keypt af mér frábæra endurnýtanlega bökunarpappírinn minn nema ég sjálf og móðir mín. Takmarkað hvað ég elska ykkur mikið kæru vinir eftir þessa hroðafengnu lífsreynslu.

Ég elska börn og börnin elska mig. Svo mikið að þau virðast sogast að mér og líma sig föst. Þau eru allstaðar-þessir englar...

Ég borðaði kjöt í gær. Hakk. Er hætt öllum mótþróa við aumingja líkin, pepperóníbörnin á leiðinni í skólann og pulsubarnið sem fann ekki móður sína tilheyra mér á ný. Hef ekki tíma til að finna mér prótín annarsstaðar, borða ekki baunir og á ekki aura fyrir prótínstykkjum. Þetta verður því að vera svona...ég hef brugðist ykkur litlu lík og þið annað hvort elskið mig eða hatið mig fyrir það.

Margt smátt, stuttverkahátíð Bandalags íslenskra leikfélaga var haldin núna á laugardag í Borgarleikhúsinu. Ég var að leika í tveimur verkum, einu verki sem ég var að leika í í sumar með Sýnum og öðru með Leikfélagi Kópavogs sem ég sýni þarna í fyrsta skipti. Allt gekk rosalega vel fyrir sig og gríðarleg stemmning í mannskapnum. Um kvöldið var svo haldið í gleðskap mikinn sem ég tala ekki um hér.

Núna var ég að uppgötva að í dag á ég að skila 6 bls heimildaritgerð í listasögu sem gildir 20% af lokaeinkunn. Frábært.

miðvikudagur, 26. september 2007

Nenni ekki að syngja...úps ég meina syrgja

Ég er veik.
Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki í heiminum þá eru það gullfiskar, ástandið, orðið ,,útland" og veikindi. Þegar ég er veik missi ég alla mögulega löngun til að gera nokkurn skapaðan hlut. Samt pirra ég mig yfir því allan daginn og alla dagana sem ég er veik, að ég hafi ekki afrekað neitt í veikindunum. Að liggja undir sæng og glápa á vídjó eða lesa er tímaeyðsla.

Fékk póstkort frá Hong Kong í dag. ,,Hæ elsku Guðrún Sóley!" ,,Elska þig"
Elskulegur ástmaður minn sem býr og starfar í Hong Kong hefur tekið sig á í íslenskunni og er farinn að tjá ást sína á mér á móðurmálinu.
Hmm nei.
Það er frá Báru sem býr núna í Nýja Sjálandi en var stödd í Hong Kong, nýkomin frá Kína og á leið til Taiwan. Úff...og hér sit ég alein á gólfinu í tómlegri íbúðinni á litla kalda Íslandi.

Furðulegt hvað líkamsstarfsemin fer í mikið rugl þegar ég er veik. Get ekki borðað neitt né drukkið en geri samt ekki annað en að fara á klósettið. Talaði við Báru áðan og þá kom þessi líka frábæra pikkuplína frá mér:

Ég get haldið í mér fyrir þig...

ekkert nema ást

þriðjudagur, 25. september 2007

Þolir þú meiri sorg?

Ef ekki...hættu þá að lesa því hér koma nýjustu fregnir af Sigurði Einari junior (ef þú veist ekki hver hann er, skrollaðu niður í eldri færslur)

Aldís, afmælisbarnið sem var svo heppið að fá hann að gjöf, fann hann látinn í eldhúsvaskinum morguninn eftir afmælið. Einhver óprúttinn afmælisgestur hafði framkvæmt þennan voðaverknað að ganni sínu og megi hann skammast sín. Sigurður Einar junior lifði góðu, en afskaplega stuttu lífi. Eftir nánustu útreikningum lifði hann í u.þ.b. 8 klukkustundir.

Megi hann hvíla í friði.

Ég hef ekki enn jafnað mig á fráfalli forföður hans, Sigurðs Einars, en hann lést eftir aðeins 16 klst langt líf. Því er þetta mikið áfall fyrir mig sem kaupanda þeirra beggja.

Megi þeir hvíla í friði.

Tveggja daga bloggleysi í minningu þeirra

mánudagur, 24. september 2007

Óljúfa líf...

Það er ekki tekið út með sældinni að vera grænmetisæta

Var að koma úr heljarinnar afmælisveislu og það eina sem ég gat etið var ritskex og vínber.
Sat á Súfistanum í einhverja fimm tíma í dag við skriftir, drakk samtals sjö kaffibolla...við það bættust svo tveir í afmælisboðinu.

Held ég sé í koffínsjokki

Reyndi að standa á haus áðan, sem gefur kannski til kynna í hvers konar ástandi ég er.
Það hjálpaði mér lítið...

laugardagur, 22. september 2007

Ég vild' ég væri...

kátur kettlingur

hæ hí bobbiddí bú lalala það held ég nú

aðal partýlagið

föstudagur, 21. september 2007

Mona Lisa

Ljóðið (i) (nn)

Mona Lisa mænir á mig
mikið er hún undirleit
Langar að láta tala við sig
læt allt flakka, rjóð og heit

Hangir uppi og heldur kjafti
hugsar með sér; hvað með mig?
Ég segi éttu skít á skafti
og ég ætla að brenna þig

Brennan hófst og börnin trylltust
brunabíllinn ók í hlað
Mona glotti, menn það hylltust
mannbjörg varð og ég studdi það

Og nú er Móna næstum fín
á nýjum stað í dimmu rými
Hugrökk er hún í í dökku lín(i)
hugsar með sér; hvað er tími(nn)?

-------------------------------------------------

Mona Lisa er komin í hús. Er reyndar búin að tína fína buffhamrinum mínum og naglarnir eru allir horfnir niður niðurfallið svo ég get ekki hengt hana upp á framtíðarstað sinn á heimilinu, fyrir ofan klósettið. Ég veit ekki fallegri tilhugsun en að mæta dularfullu brosi hennar rétt áður en ég beygi mig í hnjám og læt allt gossa. Unaðslegt.

-gs

fimmtudagur, 20. september 2007

Hugleiðsla

Sjúbbídei ég er þotin í hugleiðslu

miðvikudagur, 19. september 2007

Bökunarpappír? Bökunarpartý?

Hey þúviltu vera ótrúlega nýmóðins, artí og ofurkúl?

Keyptu þá ENDURNÝTANLEGA BÖKUNARPAPPÍRINN!!!

Ég kynni með stolti ákaflega endingagóðan, sniðugan og sparnaðarsaman bökunarpappír sem hefur marga eiginleika.

Byrjum á byrjuninni:

Hefurðu lent í því að pizzan brennur við smjörpappírinn?
Hann rifnar?
Brennur?
Eyðileggst?
Búin að baka og úps enginn pappír í skúffunni?
Fara allir aurarnir í kaup á fokdýrum bökunarpappír?

LAUSNIN ER HÉR!!

Með endurnýtanlega bökunarpappírnum spararðu ekki aðeins peninga, vesen og óþarfa áhyggjur heldur ertu um leið að vernda náttúruna og fallegu trén sem skella svona líka skemmtilega í rúðurnar.

Þú einfaldlega kaupir eina pakkningu af mér sem inniheldur tvær arkir af endurnýtanlega bökunarpappírnum og vollah: allar áhyggjur þurrkaðar út!!

Kostir:

Getur notað hann aftur og aftur og aftur og aftur...dugar í mörg ár
Matur brennur, límist eða festist EKKI við hann
Það er EKKI hægt að rífa hann.
Kakan, pizzan og jafnvel steikin rennur fallega af honum þegar út úr ofninum er komið, ekkert vesen-bara fjör
Þú skellir honum undir kranann á milli bakstra
Eða bara beinustu leið í UPPÞVOTTAVÉLINA VÚHÚÚÚ

Og nú kemur bónusinn!

Um leið og þú kaupir þessar tvær arkir (eina fyrir þig-eina fyrir mömmu) þá spararðu peninga, vesen og óþarfa áhyggjur oooog...

STYRKIR MIG UM LEIÐ TIL ÚTLANDAFARARINNAR MINNAR í byrjun október.

ALLT ÞETTA Á AÐEINS KRÓNUR 1500!!!!!

Hugsaðu þér hvað þú átt eftir að spara og spara náttúruna og vesen peninga...þrif...og þar fram eftir götunum

VILTU VERA ARTÍ? Á LEIÐ Í PARTÝ?
Vertu ofurkúl og keyptu endurnýtanlega bökunarpappírinn af mér og gleðin mun ríkja í hjarta yðar það sem eftir er


Ég er við símann NÚNA
og email
og getið líka skilið eftir comment
og allt
hvað sem er...

elska ykkur

þriðjudagur, 18. september 2007

Gefstu upp?

Já...ég gefst upp.

BG hefur sigrað mig í þrotlausu battli.
Tilvera mín er í rústum. Hef ekki farið út úr húsi síðan sigurinn var unninn. Hárið á mér er farið að kleprast undarlega mikið við sveittan hnakkann. Tímaspursmál hvenær mjólkin í vaskinum skríður upp í til mín og grípur mig hálstaki.

Allt svart.

sunnudagur, 16. september 2007

Kjöt

er viðbjóður

Losaði mig undan viðbjóðnum fyrir tæplega tveimur vikum. Ekkert kjöt á diskinn minn takk. Samt mjólk. Get ekki lifað án hennar og hún ekki án mín. Samband okkar er afar sérstakt og vanmetið.

Í nótt át ég skinkuhorn. SKINKUhorn. Fattaði það ekki fyrr en líkið var farið að meltast í mallanum. Ástæðan fyrir kaupunum á SKINKUhorninu var sú að það var á tilboði. 99 krónur.
Þetta er úti um allt. Hvert sem við lítum eru viðbjóðslegar blóðsugur sem reyna að ota að okkur líkum annarra. Blanda þeim saman, hakka þau, genabreyta þeim, forelda þau. Rétt eins og okkur. Blöndunin hefst strax þegar við erum minni en þetta: . , næst tekur við ansi dugleg hökkun, þá hefst genabreyting og loks níu mánuðum seinna: foreldrumst við*.
Baunir og grös eru það sem koma skal. Svona eins og unga fólkið; framtíðin.

*að eignast foreldra

Kjöt kjöt kjöt kjöt kjöt

Ég hvet ykkur til að líta á aumingja litla pepperónílíkið á brauðinu ykkar og bjóða því góðan daginn næst þegar þið festið kaup á líkum annarra. Athugið hvort það heilsi til baka og biðjist jafnvel vægðar. Skoðiði það grandlega og sjáiði hvað þið eruð að láta ofan í ykkur alla daga, mörgum sinnum á dag. LÍK.

Hugsaðu þér, kannski var litla pepperóníbarnið á leiðinni í stærðfræðitíma þegar það var hrifsað burt frá öllu og öllum og hakkað niður svo að þú gætir keypt það á spottprís hjá kaupmanninum á horninu og skellt nýslátruðu barninu á brauðsneiðina.

Illgjörnu líkætur.

-------------------------------------------

A: Hvað er grænt, hangir uppi á vegg og blístrar?
B: Hmmm...
A: Giskaðu
B: Álfur?
A: Nei. Síld.
B: Síld? En hún er ekki græn
A: Ég litaði hana græna
B: En hún hangir ekki uppi á vegg
A: Ég hengdi hana upp á vegg
B: Síld blístrar ekki
A: Nei...því bætti ég við svo þetta yrði ekki alltof auðvelt

þriðjudagur, 11. september 2007

Artí

Orkusugurnar herjuðu á mig
sugu sig fastar
hlupu mig niður
og gleymdu að raða skónum

Ertu ný?
Ég er ný
Guðný?
Nei

mánudagur, 10. september 2007

Brauð

Húsverkin heima fyrir eru farin að ógna tilveru minni. Tilvist mín er í rústum.


Bakaði brauð í gær. Það tók 4 klukkutíma. Fjórir klukkutímar af subbi, bið og bökun í ónýtum ofni. Kveikti næstum því í þegar smjörpappírinn fauk upp í hitarann í ofninum. Það er þess vegna sem íbúðin mín angar enn öll af reik og ljósið í ofninum eyðilagðist.


Brauðið var án efa það viðbjóðslegasta sem komið hefur inn fyrir varir mínar (fyrir utan súkkulaðiköku sem ég bakaði fyrir kökukeppni í 10. bekk sem innihélt heilan bolla af ómuldum negulnöglum, tveimur kúfullum bollum af kaffidufti og einn bolla af hjartarsalti namm...). Svart að undan og hrátt að innan. Útblásinn mallinn tútnaði meira og meira út eftir sem leið kvöldi og frá honum komu undarlegustu hljóð. Gerði mér ekki grein fyrir því hvað væri í gangi fyrr en ég var að fara að sofa og fattaði þá að gerið væri að hafa þessi áhrif á alla starfsemina, hafði nefnilega ekki þolinmæði til að láta brauðið hefast í 70 mínútur þannig ég lét það hefast í svona 7 mínútur.


Annað í fréttum er það að á fimmtudag keyptum við Kristín gullfisk. Sigurður Einar hét hann. Hét segi ég...já, hann dó. Kom heim úr skólanum á föstudeginum og Sigurður Einar flaut á yfirborðinu á heimili sínu sem staðsett var á eldavélinni minni. Mjög sorglegt allt saman, ég reyndi björgunaraðgerðir en allt kom fyrir ekki. Hann lést innan við sólarhring eftir að ég varð móðir hans. Kristín og Davíð komu og rannsökuðu líkið fyrir mig og gerðu það sem gera þurfti. Það var mjög trakískt þegar honum var sturtað niður í klósettið sem er bilað og því sturtaðist hann ekki almennilega niður. Á von á því að hann poppi upp hvað úr hverju. Aumingja Sigurður Einar.


Við gáfumst þó ekki upp og héldum í gæludýrabúðina að velja næsta fórnarlamb. Þar fundum við Sigurð Einar junior og komum honum fyrir á nýja heimilinu sínu, draugur fortíðar bankaði uppá og bað um kaffisopa. Honum var neitað. Um kvöldið fékk Sigurður Einar junior svo nýjan eiganda og líkar vel. Hamingjan blómstrar og hann er sprækur sem aldrei fyrr.


Mig langar að tileinka þetta blogg Sigurði Einari sem lést af völdum ofáts sökum rangra upplýsinga um matarskammta. Hann átti víst að fá 3 korn en ekki 300.


Megi hann hvíla í friði.
Sigurður Einar, forfaðir Sigurðs Einars junior

fimmtudagur, 6. september 2007

dauði

nú deyr tölvan úr batteríisleysi og ég sem ætlaði að blogga...

þriðjudagur, 4. september 2007

Kleinur

Úfff

fór að ,,versla í matinn" í gær og þar sem ég er ekkert ofboðslega vön því að ,,versla í matinn" þá var innkaupalistinn minn ansi stuttur og laggóður
-Kók
-Kleinur
-Spælegg

og ég gerði ekki einu sinni innkaupalista.

En núna, þó nokkrum klukkutímum seinna er kleinupokinn galtómur og krumpaður við hliðina á hálffullri kókflösku. Og ég át þær allar ein.

Samviskubitið minnkaði þó til muna þegar ég gerði mér grein fyrir því að kleinurnar voru aðeins (og takið eftir því að ég segi aðeins) 12 en ekki 20 eins og ég hélt...
oj




stofan í fyrrakvöld






stofan í gærkvöld...lítur nokkuð vel út en...



svona er svefnherbergið

Bara fyrir Báru

hún virðist vera sú eina sem kærir sig um að lesa þetta...

JEI ÉG ER HAMINGJUSÖM

margt hefur breyst síðan síðast....
hætti við að flytja út með Kristínu og Davíð sökum óviðráðanlegra aðstæðna
er þó flutt út
og búin að hrúga öllu draslinu mínu í nýju íbúðina
sem er afskaplega notalegt

sat alein, hálfberrössuð á stofugólfinu í mykrinu í fyrrakvöld þegar mér varð litið yfir dýrðina
váá...þetta er einmitt það sem ég vil

fór í húsgagnaleiðangur í gær en fann engin húsgögn, kom þó heim með fullan poka af glösum, bollum, diskum,skálum, hnífapörum og já þetta líka glæsilega hnífasett sem kostaði mig heilar 350 krónur. Hvað myndi ég gera án Ikea?

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Mr Bojangles

Ef þú sérð einmana svartan og hvítan rafmagnsgítar á vappi úti á götu með fjólubláa skotthúfu í rauðum stígvélum þá máttu endilega heilsa upp á hann og vísa honum veginn á eiganda sinn, sem er ég.

Hef gullfiskana grunaða um að hafa tekið hann, þeir voru þeir einu sem voru á heimilinu á meðan á ferðinni stóð. Finnst það þó ólíklegt.

--------------

Komin heim frá Glasgow, mögnuð ferð og kom heim með heilan helling af fötum og dóti. Toppurinn er samt bassinn sem ég keypti mér og dröslaði borgarendana á milli heilan dag, kom heim með hann og komst að því að ég er búin að týna rafmagnsgítarnum mínum. Já, hann hvarf á meðan ég var í Glasgow. Og jacksnúran fór með honum þannig ég get ekki spilað á bassann nema órafmagnaðan og það er afskaplega takmarkað gaman.
Komst að mörgu í Glasgow, t.d.

-það er vinstri umferð sem er stórhættuleg ef maður gleymir sér og veður út á götu eftir að hafa litið til hægri

-dvergar geta unnið á flugvöllum

-ég passa í fötin í barnadeildinni í HM fyrir 12 og 13 ára krakka

-það er enginn virðusaukaskattur á barnafötum í Glasgow

- það er gott að versla svoleiðis

-það halda allir að ég sé spánverji

-ef maður borðar of mikið af ben&jerry's verður manni illt í maganum

-belgískar vöfflur eru hættulega góðar

-það er hægt að týnast

-en maður finnst aftur


En fjör.

Skólinn er byrjaður, búin að mæta í þrjá daga og strax byrjuð að sofna í tímum og skrópa. Ég er búin að vera ótrúlega óróleg þessa daga og er engan veginn að geta setið kyrr í skólanum og hlustað á kennarann. Mun betra að leggja sig eða þá bara að sleppa þessu alveg og hanga í rauða herberginu í staðinn. Það versta er að ég er í 24 einingum sem er alltof mikið miðað við áhuga- , metnaðar- og peningaleysið. Komst nefnilega að því að ég þarf víst að kaupa slatta af bókum og á u.þ.b. 12 krónur eftir það sem út er mánuðinn og fæ ekkert útborgað um mánaðarmótin. Mjög basic að fá ekkert útborgað þar sem ég vann ekki neitt.

Sumarbústaður núna um helgina og vonandi íbúð sem fyrst. Skoðuðum magnaða íbúð í gær og ég finn það á mér að við fáum hringingu innan skamms...

Lifið heil og látið ekki gabba ykkur í skóla, það er bara vesen.

miðvikudagur, 22. ágúst 2007

Dugnaður

Ég gerði alveg svakalega margt í dag

-keypti mér tvisvar sinnum pítsu, bæði dominos extra
-skilaði bunka af skólabókum
-kom aftur heim með bunka af skólabókum en þó nokkuð minni en ég fór með
-keypti mér fullt af kasettum í Góða hirðinum, misgáfulegar
-spjallaði við Helga Hós
-tók í höndina á honum
-bauð honum regnhlífina mína en hann vildi ekkert með hana hafa
-skoðaði íbúð
-skoðaði aðra íbúð
-keypti bland í poka
-bakkaði á mann
-drap Kristínu næstum því
-og aftur...næstum því
-borðaði pítsu úti á höfn
-hoppaði fram af vegg og sveif á regnhlíf
-rústaði regnhlífinni
-tók trilljón myndir af Kristínu og Davíð misþyrma regnhlífinni minni
-komst að því að ég er með 5 regnhlífar í skottinu
-og komst einnig að því að ég kemst vel fyrir í skottinu
-og að það er ekkert sérlega sniðugt...
-fórum í heimsókn til Gerðar sem lagði fyrir okkur Tarot spil
-komst að því að hún veit greinilega ALLT um sjálfa mig
-svakalegt


Og svo fattaði ég rétt í þessu að ég á víst að skunda í skólann í fyrramálið og næstu nótt er flug til fjarlægra landa...eða lands

OMG

mánudagur, 20. ágúst 2007

Og nú byrja ég aftur

Í tilefni þess að þeir örfáu sem lásu þetta eru búnir að gefast upp á skrifleysinu...

Tók upp á því í gær að mála bílinn minn. Gætti þess þó að mála aðeins hægri hliðina þar sem hún sést ekki þegar ég legg í stæðið fyrir utan húsið mitt...svona til að forðast óþarfa spurningar um hvað í ósköpunum hafi komið fyrir bílinn minn. Það tókst þó ekki alveg.

Vaknaði upp við það í morgun að móðir mín þrammar inn í herbergið mitt.

,,Guðrún Sóley! Hefurðu séð bílinn þinn!"
Þar sem ég var á bólakafi í enn einum óléttudraumnum muldraði ég eitthvað og tróð hausnum undir koddann. Hún gafst ekki upp heldur hrópaði enn hærra:
,,GUÐRÚN SÓLEY! Þvílíkar ástarjátningar á bílnum þínum...mig grunar að hann hafi komið í nótt...já...og litað allan bílinn þinn! Að hugsa sér...!"

Og þá datt ég inn í óléttudrauminn og svaf vært til hádegis. Þegar ég klöngrast upp stigann og inn í eldhús sitja þær mæðgur við eldhúsborðið með spekingslegan svip og stara á mig.

,,Hvað?" spyr ég og nudda stírurnar úr augunum
,,Hefurðu séð bílinn þinn?" segja þær í kór og glotta
,,Já...ég gerði þetta í gær"
,,Núnú...við höldum að það hafi einhver komið í nótt og skrifað ástarjátningar til þín á bílinn"
,,Ha? Hver ætti að gera það? Ég gerði þetta í gær á planinu hjá Kristínu..."
,,Núnú og þorðirðu að aka á bílnum svona heim? Ekki trúum við því..."

Og þannig hélt samtalið áfram...og áfram....og áfram...þar til ég gafst upp og fór að tannbursta mig. Þær hafa glott og spurt mig ,,lúmskra" spurninga í allan dag sem ég þykist ekki taka eftir. Rétt í þessu tók ég uppá því að þjóta út í bíl og ná í bláa litinn, afhenda þeim hann og sýna þeim litinn undir nöglunum á mér. Þá hlógu þær og spurðu af hverju ég væri að æsa mig svona yfir þessu

Úff...það er svo sannarlega erfitt að vera listamaður

föstudagur, 22. júní 2007

Fráhvarfseinkennin...

eru alveg svakaleg. Get ekki hætt að hugsa um skólann, alla sem í honum voru og allt sem við brölluðum. Er núna fyrst að komast í gang á morgnanna enda ekkert búin að geta hvílt mig almennilega síðan ég kom heim og ekki svaf ég mikið í skólanum...


Ætla að reyna að hætta að væla yfir því að vera komin heim og hlakka í staðinn til skólans næsta sumars...og næsta...og næsta...

Ég fékk bónorð í dag, eða í raun ekki bónorð heldur skipun: ,,Þú ert kærastinn minn og þú átt að giftast mér og giftingin er á morgun" Ég hef aldrei verið kærasti neins áður. Það er frábær tilfinning.

Vinnan mín er sú besta í heimi. Að semja tónlist, útsetja og spila allan daginn og fá borgað fyrir það er svakalegt. Næsta vika er heldur þétt setin af leikskólakynningum, tónleikum á elliheimilum og spileríi víðsvegar um bæinn. Erum líka með lítið atriði á Jónsmessuhátíðinni í Hellisgerði á morgun og við byrjum kl 20 ef einhver hefur áhuga á að kíkja.


En núna ætla ég að fara að pakka ofan í tösku og þjóta út í sveit í eina nótt

mánudagur, 18. júní 2007

Heim úr dalnum...

Úff...
bestu dagar lífs míns að baki og það er hreint út sagt ömurlegt að vera komin heim aftur

takk fyrir mig Svarfaðardalur og sjáumst að ári

mánudagur, 4. júní 2007

Gríma er stór og loðin

og ég sakna hennar alveg ótrúlega mikið NÚNA og samt er hún ekki farin. En hún fer. Á föstudaginn yfirgefur hún litla ljóta Ísland og heldur á vit ævintýranna.

Rigningin dynur á rúðunni minni og þó ég sé komin úr búningnum mínum þá er ég enn sár í hjarta. Það er svo vont að kveðja, þó svo að ég viti vel að við eigum eftir að hittast aftur og allt það, en ég fæ samt alltaf einhverja tómleikatilfinningu...sérstaklega ef manneskjan er einhver sem maður nær að tengja sig við. SÉg elska að geta talað við fólk og talað í alvöru við fólk, ekki eitthvað yfirborðskennt rugl sem skiptir engu máli og hefur enga þýðingu fyrir neinn. Þannig er Gríma (vá ég var næstum búin að skrifa var Gríma úff...) og ég fíla það for fanden! Nei, svona í alvöru...það er ekki oft sem maður kynnist einhverjum sem skilur ruglið í kollinum á manni og hefur sjálfur upplifað það sama og maður sjálfur. Og það að geta talað saman án allrar upphefðar eða tilgerðar og verið maður sjálfur hundrað prósent er frábært og það finnur maður ekki með hverjum sem er. Ég á nokkra svoleiðis vini og Gríma er án efa ein af þeim. Gríma lille abepige.

Skemmtu þér ótrúlega vel úti elsku Gríma og gerðu eitthvað tryllt!!!

...svo ef ég sakna þín of mikið þá bara sting ég þér í samband við ristavélina :)

góða ferð gríma litla

sunnudagur, 3. júní 2007

Gleði gleði...

Frumsýning í gær á Limbó sem heppnaðist líka svona svakalega vel! Hvet alla til að kíkja á sýningu sem fyrst því við sýnum aðeins á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og lokasýning á fimmtudag. Getið líka skoðað á www.123.is/lh. Bandalagsskólinn á föstudaginn og ég er orðin verulega spennt...

þriðjudagur, 29. maí 2007

De er røde de er hvide

Búin að sækja um og búin að fá óskiljanlegt svar

þá er bara að byrja að æfa sig að snakka dönsku

sunnudagur, 27. maí 2007

föstudagur, 25. maí 2007

Yo

Ný síða...eina ferðina enn.
Það er þó góð og gild ástæða fyrir því, fartölvan mín, sem ég kýs að kalla Bobby, neitar að opna bloggar.is og því reynist mér ansi erfitt að blogga á bloggar.is. Hef ekki tjáð mig við alheiminn síðan ég veit ekki hvenær (einmitt vegna þess að ég get ekki opnað gömlu síðuna mína og séð það) og tími til kominn að segja eitthvað.

Ég er alveg ótrúlega löt. Búin að vera í fríi síðan á miðvikudag í síðustu viku og lítið annað búin að gera en að sofa, éta og eyða peningum sem fara brátt að klárast. Reyndar fór ég í frábæra útilegu og spilaði á tvennum tónleikum en ég var afskaplega þreytt allan tímann.
Hef ekkert unnið í mánuðinum sem þýðir 0 kr í útborgun og 0 kr til að eyða út júnímánuð. Flott. Ástandið er orðið svo slæmt að ég fer að sofa fyrir miðnætti, vakna klukkan tvö eftir hádegi, legg mig fyrir kvöldmat og fer aftur að sofa fyrir miðnætti. Þetta mynstur breyttist þó eilítið í morgun þegar ég vaknaði upp við hávært sms-píphljóðið á náttborðinu mínu (sem er þó ekki náttborð heldur diskóborð frá áttunda áratugnum sem faðir minn smíðaði) rétt fyrir hálf ellefu. 'Það er mynd af þér í mogganum, farðu á fætur' var innihald skeytisins. Harðlindið og gríðarleg ógnun við svefnvenjur mínar varð að engu þegar ég las og það eina sem komst að í huga mínu var: Vááá...gegt. Þaut upp og leitaði að mogganum. Týndur. Opnaði bréfalúguna og hann hrundi út. Hmm...engin mynd af mér á forsíðunni, slæmt....engin mynd af mér á baksíðunni, slæmt...heyy...mynd af mér hjá bíóauglýsingunum. Ég velti því fyrir mér hvort ég eigi að fara að æfa mig að skrifa eiginhandaráritanir eða láta sem ég heyri ekki í krakkaskaranum, nei afsakið..ég meina hafinu af karlmönnum, sem bíða mín fyrir utan gluggann. Ég gæti líka þróað einhverja alveg nýja aðferð...en þá þarf ég að vísu að hugsa, sem ég á ansi bágt með að nenna.

Mig dreymdi draum í nótt. Mig dreymir alltaf drauma á næturnar og ég man þá alltaf. Núna dreymdi mig að ég væri drukkin á hjóli. Í draumunum mínum er ég alltaf annað hvort drukkin, ólétt, týnd eða allt þetta í bland. Í þessum draumi var ég var að hjóla á eftir bíl sem á stóð Jón son og það var eitthvað rosalegt mál með þetta son sem ég skildi ekki alveg. Ég var á leiðinni á Kaffibarinn á hjólinu mínu með vinkonu mína aftan á. Hjólaði á staur og braut hjólið. Fórum inn og spjölluðum við mannskapinn sem tók okkur fagnandi með þeim fréttum að ég væri ekki í buxum. Jább, ég var buxnalaus og berrössuð með kúlu á hausnum og í vafasömu ástandi, með ónýtt hjól fyrir utan. Það lagaðist samt ekkert. Þegar ég leit niður, sem ég auðvitað gerði þegar mér var tilkynnt að ég væri ekki í buxum, þá tók ég eftir glampandi óléttubumbunni minni sem teygði sig út í sígarettureykinn. Þá vaknaði ég. Vaknaði við sms-píphljóðið.

Hugsiði ykkur, ef það hefði ekki verið mynd af mér í mogganum þá hefði ég ekki fengið neitt sms, ef ég hefði ekki fengið neitt sms þá hefði ég ekki vaknað, ef ég hefði ekki vaknað þá væri ég sofandi núna, ef ég væri sofandi núna þá væri ég ekki að blogga heldur sofa, ef ég væri ekki að blogga heldur sofa þá væri ég trúlega enn stödd á Kaffibarnum að reyna að ráða fram úr buxnaleysinu, óléttunni, kúlunni á hausnum, ónýta hjólinu, son og ef til vill væri eitthvað stórkostlegt búið að bætast við...